N1 hagnaðist um 441 milljónir íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við 711 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra. Dróst hagnaður félagsins því saman um 38% á milli ár Þetta kemur fram í afkomutilkynningu fyrirtækisins.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 768 milljónum króna á fjórðungnum samanborið við 1.104 milljónir á sama tímabili í fyrra. Er þetta samdráttur upp á 30,4% á milli ára.

Framlegð af vörusölu dróst saman um 8% á fjórðungnum. Selt magn af bensíni og  gasolíu jókst um 5,5% milli ára vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu. Í tilkynningu frá N1 vegna uppgjörsins segir að þróun á heimsmarkaðsverði með eldsneyti  og styrking íslensku krónunnar hafi haft neikvæð áhrif á annan ársfjórðung 2017 miðað við jákvæð áhrif á sama ársfjórðungi í fyrra.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að umferð á þjóðvegum landsins hafi aukist um 11,4% á milli ára.

Eigið fé fyrirtækisins var 12.471 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfallið var 46,4%.