Hagnaður af rekstri álvers Norðuráls á Grundartanga lækkaði um 84% á síðasta ári, úr 3,1 milljarði króna í tæplega 500 milljónir króna. Afkoman er sú næstversta í áratug hjá fyrirtækinu. Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir að lágt álverð og hátt verð á súráli skýri helst versnandi afkomu milli ára. Rekstrartekjur jukust úr 658 milljónum dollara í 752 milljónir dollara, en félagið gerir upp í dollurum. Framlegð félagsins lækkaði úr 64,5 milljónum dollara í 822 þúsund dollara. Þá var rekstartap 1,8 milljónir dollara, miðað við 62,5 milljóna dollara rekstrarhagnað árið áður.

Framleiðslukostnaður jókst úr 553 milljónum dollara í 711 milljónir dollara. Fjármagnsgjöld  voru 9,8 milljónir dollara, og lækka úr 13,5 milljónum dollara fyrir ári. Hins vegar var gengismunur hagstæður um 12,7 milljónir dollara en var neikvæður um 14 milljónir dollara fyrir ári. Því skýra breytingar á gengi nærri 27 milljóna dollara sveiflu í afkomunni.

Markaðsaðstæður erfiðar

„Súrálsverð hækkaði mjög verulega og samhliða því lækkaði álverð seinni hluta ársins, svo markaðurinn var mjög erfiður. Þetta ár fer ekki vel af stað en við erum byrjuð að sjá merki um að súrálsverð sé farið að lækka. Álverð er ennþá í kringum 1.800 dollara sem er mjög lágt. Það þrengir að þegar hvort tveggja hækkar hráefnisverð og afurðaverðið lækkar,“ segir Ragnar. „Við teljum álverð í kringum 1.800 dollara tiltölulega lágt. Birgðir á áli fara minnkandi og það er út af fyrir sig jákvætt. Vonandi leiðir það til hærra verðs á næstu misserum,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .