Rekstur Norðuráls gekk vel á síðasta ári en samkvæmt nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins kemur fram að tekjur þess námu 565 milljónum Bandaríkjadollara eða rétt tæpum 66 milljörðum íslenskra króna en þær jukust um 31% frá árinu 2013.

Hagnaðurinn þrefaldaðist milli ára en hann nam 82,7 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 10,7 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári samanborið við 27,6 milljónir árið áður.

Miklu munar um tekjur vegna gengishagnaðar á síðasta ári en þær námu rúmum 23 milljónum dollara (2,7 milljarðar króna) samanborið við gengistap árið áður upp á tæpar 20 milljónir dollara (2,3 milljarðar króna).

Hluti af rekstrinum að gera ráð fyrir sveiflum

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, hefur að baki mikla reynslu í álgeiranum en hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1997. Reksturinn hefur gengið vel að hans sögn síðustu ár en hræringar á álverði hafa reynst fyrirtækinu illa í sumar. Áliðnaðurinn er hins vegar hugsaður til langs tíma að sögn Ragnars og því segja skammtímasveiflur lítið um framtíðaráform fyrirtækisins.

„Auðvitað eru sveiflur í álverði og við sjáum niðursveifluna núna, en sveiflur eru hluti af þeim veruleika sem við erum í. Ég hef verið í þessum bransa í átján ár og hef margoft séð álverð fara bæði upp og niður. Það er hluti af rekstrinum að gera ráð fyrir svona sveiflum,“ segir Ragnar en þá vísar hann til þeirrar staðreyndar að verð á áli á málmkauphöllinni í London hefur lækkað um 12,5% það sem af er ári. Hann vonar að það rétti úr álverði frekar fyrr en síðar.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, er í ítarlegu viðtali í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .