Rekstrarhagnaður (EBIT) Orkuveitu Reykjavíkur á fyrstu níu mánuðum ársins nam 11,2 milljörðum króna og var nær óbreyttur milli ára. Rekstrarhagnaður nam 3,1 milljarði króna á þriðja ársfjórðungi 2020 og jókst um 200 milljónir milli ára.

Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 1,6 milljörðum króna og jókst um 600 milljónir milli ára. Hagnaður á fyrst níu mánuðum ársins nam 744 milljónum króna en 4,4 milljörðum árið áður. Rekstrartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 35 milljörðum og jukust um einn og hálfan milljarð milli ára.

Fjárfestingar á téðu tímabili námu 11,4 milljörðum og tengjast helst uppbyggingu og viðhaldi veitukerfanna; vatnsveitu, fráveitu og rafveitu ásamt fjárfestingu í nýjum borholum á Hengilssvæðinu. Greint er frá því í tilkynningu félagsins að framkvæmdirnar eru fjármagnaðar með framlegð rekstursins ásamt lántöku.

Í lok þriðja ársfjórðungs 2020 námu eignir alls 395 milljónum króna skuldir 208 milljónum og eigið fé 187 milljónum. Eiginfjárhlutfall Orkuveitu Reykjavíkur nam rúmlega 47% og er nær óbreytt milli ára.

Bjarni Bjarnason, forstjóri

„Það siglir enginn rekstur lygnan sjó í kófinu. Við okkur blasa sífellt ný viðfangsefni tengd heimsfaraldrinum. Við bregðumst skjótt við en grípum líka þau tækifæri sem skapast til að bæta og efla starfsemina. Tiltölulega hagstætt er að ráðast í fjárfestingar um þessar mundir; tilboð eru gjarnan lægri en á þenslutímum og fjármögnun fæst á góðum kjörum.

Við ákváðum strax í fyrravetur að ráðast í sérstakar viðspyrnufjárfestingar vegna kórónuveirunnar. Viðhaldsfjárfestingar og efling og stækkun veitukerfanna eru veigamestar í ár en nú fer líka að líða að framkvæmd í einu stærsta fjárfestingaverkefni okkar um hríð; uppfærslu á 160.000 orkumælum sem eru á heimilum og hjá fyrirtækjunum á veitusvæðum okkar en gömlu mælunum verður skipt út fyrir svokallaða snjallmæla. Útskiptin eru stórt skref inn í framtíðina sem við hlökkum til að móta með viðskiptavinum okkar.

Við vorum vel undir kórónuveiruna búin með viðbragðsáætlanir og starfsfólk hefur sýnt mikla ábyrgð og virðingu fyrir mikilvægi þjónustunnar í samskiptum við viðskiptavini og sín á milli. Þannig höfum við komið í veg fyrir að faraldurinn i bitnaði á þeirri mikilvægu grunnþjónustu sem Veitur, Orka náttúrunnar og Ljósleiðarinn veita.“