Hagnaður Orkuveitunnar dregst saman á þriðja ársfjórðungi dregst saman um 1,1 milljarð á þriðja ársfjórðungi 2017 en hann var 3,2 milljarðar í ár samanborið við 4,3 milljarða á sama tíma í fyrra. Rekstrartekjur jukust um liðlega 700 milljónir króna og rekstrarkostnaður um 110 milljónir króna. EBIDTA framlegð hækkað því milli ára um rúmar 600 milljónir. Fjármunatekjur drógust töluvert saman en þær voru 3,1 milljarður á þriðja ársfjórðungi 2016 en rúmlega 700 milljónir á sama tíma í ár.

Hagnaður Orkuveitunnar hefur þó aukist á fyrstu níu mánuðum ársins og eykst milli ára um 1.140 milljónir króna. Rekstrartekjur hækka um 1.389 milljónir króna og voru 31,3 milljarðar króna fyrstu níu mánuði ársins samanborið við 29,9 milljarða á sama tímabili árið 2016. Rekstrarkostnaður lækkar um 41 milljón króna og stendur í 11.744 milljónum samanborið við 11.785 milljónir fyrstu níu mánuði ársins 2016. EBIDTA framlegð Orkuveitunnar á fyrstu níu mánuðum ársins var 19,6 milljarðar króna en afskriftir námu tæpum 7,1 milljarði.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að ytri rekstrarskilyrði hafi verið hagstæð og hækkun álverðs hafi haft jákvæð áhrif á rekstur félagsins. „Verulegur hluti raforkusölu ON, dótturfyrirtækis OR, er tengdur álverði, sem hefur hækkað nokkuð frá áramótum. Þetta hefur skilað auknum tekjum á árinu. Samningar um raforkusölu til álbræðslu eru langtímasamningar og er áætlaður ábati á öllum samningstímanum færður til tekna í árshlutareikningnum. Þess vegna endurspeglar hin góða rekstrarniðurstaða tímabilsins ekki bara tekjuaukningu frá áramótum heldur einnig væntan tekjuauka, sem framtíðin mun leiða í ljós hvort skilar sér.“

Innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Í tilkynningu segir að samanlagður rekstrarkostnaður fyrirtækjanna hafi lækkað frá fyrra ári. Í fjárhagsspá fyrir næsta ár , sem birt var 20. október síðastliðinn, er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður haldi áfram að lækka. „Þetta skilar sér til viðskiptavina því á þessu ári hefur gjaldskrá fyrir kalt vatn lækkað og gjaldskrá fyrir dreifingu rafmagns lækkað tvisvar,“ segir í tilkynningunni.