Sjóvá hagnaðist um rúmlega milljarð á fyrsta ársfjórðungi, en hagnaðurinn nam rúmum tveimur milljörðum á sama tíma í fyrra. Því dróst hann saman um milljarð á milli ára, eða um 49%

Hagnaður félagsins af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta dróst saman um 51,3% á milli ára og nam 800 milljónum króna á nýliðnum ársfjórðungi. Þannig nam hagnaður félagsins af vátryggingastarfsemi fyrir skatta 460 milljónum króna á ársfjórðungnum og dróst saman um 16,9% á milli ára.

Sjá einnig: Færa virði Controlant niður

Eignir Sjóvá námu 69 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi, jukust um rúman milljarð frá lok árs 2021. Skuldir félagsins námu 48 milljörðum króna og jukust um tæpa fimm milljarða frá lok árs 2021. Eigið fé félagsins nam rúmum 20 milljörðum í lok mars og dróst saman um tæpa fjóra milljarða frá lok árs 2021. Þannig lækkaði eiginfjárhlutfallið úr 35,9% í lok árs 2021 niður í 30,2%.

Tjónahlutfall hækkaði á milli ára, fór úr 68,2% í 73,1%. Í tilkynningu frá félaginu segir að aldrei hafi eins margar tjónstilkynningar borist í einum mánuði eins og í mars á þessu ári. Það skýrist einna helst af því að fjórðungurinn var óvenju þungur veðurfarslega. Aukin umsvif í atvinnulífinu hafi auk þess stuðlað að hækkandi hlutfalli á milli ára.

Á sama tíma jukust iðgjöld tímabilsins um 13,7% samanborið við sama tímabil í fyrra. Iðgjaldavöxtur var í öllum tryggingaflokkum, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum.

Greiða 3,85 milljarða í arð

Á aðalfundi félagsins, sem haldinn var þann 11. mars síðastliðinn, var samþykkt að greiða arð sem nemur 3,14 krónum á hlut vegna ársins 2021, eða um 3,85 milljarða króna. Arðgreiðsludagur var 30. mars 2022.

Í lok fyrsta ársfjórðungs voru hluthafar Sjóvá 1.356 talsins. Stærsti eigandi Sjóvá er SVN eignafélag, sem er í eigu Síldarvinnslunnar, með 15,17% hlut. Snæból ehf. kemur þar á eftir, félag í Finns R. Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, með 9,96% hlut.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár:

„Rekstur Sjóvár gekk með ágætum á fyrsta fjórðungi ársins þar sem afkoma af rekstri nam 1.054 m.kr. og er niðurstaðan góð í ljósi viðburðarríks tímabils bæði í fjárfestinga- og vátryggingastarfseminni

Sem fyrr leggjum við höfðáherslu á að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu. Í vetur reyndi sannarlega á það þegar óvenju margir viðskiptavinir leituðu til okkar vegna tjóna. Við sjáum mikið virði í samskiptum við viðskiptavini og nýtum þau til þess að aðlaga vöru- og þjónustuframboð þannig að það endurspegli þarfir þeirra hverju sinni.“