Gengi bréfa Walgreens lyfjaverslunarkeðjunnar í Bandaríkjunum lækkaði um 6,04% í dag eftir ársfjórðungsuppgjör félagsins sem sýndi minni hagnað en vænst var.

Nam hagnaður tímabilsins sem lauk 30. nóvember síðastliðinn, 845 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 104,5 milljörðum íslenskra króna, sem er nálega fjórðungssamdráttur frá því sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam 1,1 milljarði dala.

Sala félagsins jókst um 1,6%, í 34,3 milljarða dala, á sama tíma og töluverð pressa er á félaginu vegna aukinnar netverslunar með ýmsar vörur sem seldar hafa verið með lyfjunum eins og sápur og vítamín. Jafnframt eru tryggingafélög að greiða minna fyrir lyf.

Félagið rekur tæplega 9.300 verslanir í Bandaríkjunum, undir merkjum Walgreens, en það var stofnað árið 1901. Jafnframt á félagið Boots lyfjaverslunarkeðjuna í Bretlandi, Írlandi og víðar.

Stefnir félagið að því að lækka kostnað, með sölu og lokunum á óhagkvæmum rekstrareiningum, og lækkaði hagnaður síðasta ársfjórðungs ársins 2019 um 55% milli ára vegna kostnaðar við aðgerðirnar. Stefnir félagið á að hafa lækkað kostnað um 1,8 milljarða dala á árinu 2022.