Tekjur Wells Fargo á þriðja ársfjórðungi fóru fram úr væntingum og 6 milljarða Bandaríkjadala hagnaður bankans, eða sem samsvarar rétt tæplega 700 milljörðum íslenskra króna, er þriðjungi hærri en á sama tíma ári. Í kjölfarið hækkaði hlutabréfaverð í bankanum um 1,30% og fæst hvert bréf bankans nú á 52,11 dali.

Wells Fargo bankinn, sem er með höfuðstöðvar í San Fransisco er fjórði stærsti banki Bandaríkjanna út frá eignum, en annar stærsti banki heims út frá markaðsvirði á eftir JPMorgan Chase.

Tekjur bankans á ársfjórðungnum námu 21,9 milljörðum dala, sem er eilítið hærra en spár greiningaraðila um 21,89 milljarða, en samt sem áður voru tekjur á hlut minni en vænst var að því er CNBC greinir frá.

Forstjóri bankans, Tim Sloan segir niðurstöðuna til marks um að hagræðingaraðgerðir væru að skila niðurstöðu auk upptöku nýrra tæknilausna. Í september tilkynnti bankinn um að hann hyggðist skera niður starfsmannafjöldann um 5 til 10 prósent á næstu þremur árum, en starfsmenn hans slaga hátt í íslensku þjóðina eða 265 þúsund manns.

Segir bankinn aukinn áhuga viðskiptavina á að nýta stafrænar lausnir meðal ástæðna niðurskurðarins. Ýmis merki er um batnandi hag viðskiptavina bankans, kreditkortanotkun hefur aukist og aukin eftirspurn eftir bílalánum.

Undir eftirliti vegna hneykslismála

Samt sem áður er vöxtur bankans sem stendur í ákveðinni spennitreyju vegna þess að hann er undir eftirliti vegna hneykslismála sem snerust um söluaðferðir.

Frá því í september í fyrra að í ljós kom að bankinn hefði opnað milljónir banka- og sparnaðarreikninga sem skráðir voru á viðskiptavini bankans sem fengu svo reikninga fyrir þeim hefur bankinn verið sektaður um 185 milljón dali, eða sem samsvarar 21,5 milljarði íslenskra króna.

Bættust nýjar ásakanir á hendur bankanum við í apríl á þessu ári, m.a. um að hafa neytt viðskiptavini til að kaupa óþarfar bílatryggingar sem gætu bætt við 1 milljarðs dala sektargreiðslur á bankann.