Veitingastaðirnir Sæta svínið, Apótekið, Sushi Social og Tapas barinn högnuðust um samtals 86 milljónir króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningum þeirra og dróst samanlagður hagnaður lítillega saman frá fyrra ári þegar hann nam 102 milljónum. Veitingastaðirnir fjórir eru að stærstum hluta í eigu félagsins BBN ehf. en eigendur þess félags eru Nuno Servo með 50% hlut, Bento Guerreiro með 40% hlut og Bjarki Freyr Gunnlaugsson með 10% hlut auk þess sem þremenningarnir fara sjálfir með eignarhlut í Tapas barnum í sömu hlutföllum. Þá koma þeir einnig að rekstri veitingastaðarins Fjallkonunnar sem var opnuð í byrjun sumars.

Hagnaður Sæta svínsins nam 22 milljónum króna á síðasta ári og dróst saman um tæplega helming frá fyrra ári. Hagnaður Apotek resturant nam einnig 22 milljónum króna og dróst saman um þriðjung frá fyrra ári. Hagnaður Sushi Social og Tapas barsins jókst hins vegar á milli ára. Hagnaður Sushi Social nam 18 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 8 milljónir króna. Þá nam hagnaður Tapas barsins 24 milljónum og jókst einnig um 8 milljónir frá fyrra ári.

6% veltuaukning

Rekstrartekjur staðanna fjögurra námu samtals 2,25 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 6% milli ára. Tekjur Sæta svínsins stóðu í stað milli ára og námu 623 milljónum króna. Velta Apóteksins jókst um 8% milli ára og nam 763 milljónum króna. Tekjur Sushi Social námu 419 milljónum og jukust um 9% auk þess sem tekjur Tapas barsins jukust um 10% milli ára og námu 442 milljónum.

Þá nam samanlögð EBITDA 136 milljónum króna og lækkaði um 14% milli ára. Hjá Sæta svíninu og Apótekinu lækkaði EBITDA um 36% og 32% og nam 45 og 37 milljónum. EBITDA Sushi Social og Tapas barsins jókst hins vegar um rúmlega helming milli ára og nam 24 og 31 milljón króna.

Eignir staðanna námu samtals 495 milljónum króna í árslok og jukust um 5 milljónir milli ára. Þar af var handbært fé samtals 238 milljónir í lok árs og jókst um 45 milljónir milli ára. Eigið fé þeirra nam samtals 271 milljón króna og hækkaði um 21 milljón milli ára. Eiginfjárhlutfall staðanna fjögurra var samtals 54,7% í árslok og hækkaði um 3,7 prósentustig milli ára. Eiginfjárhlutfall Sæta svínsins var 45% í árslok og hækkaði um 17 prósentustig milli ára. Hjá Apótekinu var hlutfallið 43,2% auk þess sem hlutfallið var 65% hjá Sushi Social og 68% hjá Tapas barnum.

Launakostnaður hækkar

Töluvert hefur verið rætt og ritað um fjölda veitingastaða sem hafa lokað í miðborg Reykjavíkur á síðustu misserum. Rekstrarumhverfi þeirra hefur almennt versnað það sem af er ári meðal annars vegna fækkunar ferðamanna til landsins samhliða gjaldþroti WOW air, kyrrsettningar Boeing 737 MAX véla Icelandair auk mikillar samkeppni á veitingamarkaði. Annar þáttur sem nefndur hefur verið til sögunnar er hækkandi launakostnaður og þá sérstaklega sem hlutfall af tekjum. Laun og launatengd gjöld staðanna fjögurra námu 1.028 milljónum króna á síðasta ári og hækkuðu um 12% milli ára.

Launakostnaður sem hlutfall af tekjum nam 45,7% á síðasta ári samanborð við 43,4% árið 2017. Launakostnaður staðanna hefur hins vegar hækkað talsvert þegar litið er lengra aftur í tímann. Launakostnaður sem hlutfall af tekjum nam 40,5% árið 2016 og var 38,9% árið 2015. Þess ber þó að geta að Sæta svínið var opnað í mars 2016 en launahlutfall staðarins var strax á fyrsta rekstrarári í takt við hina staðina. Þetta þýðir hins vegar að launahlutfall staðanna hefur hækkað um 6,7 prósentustig á síðustu þremur árum. Búast má við að launahlutfall veitingastaða muni hækka enn frekar í kjölfar kjarasamninga á sama tíma og töluverð óvissa er um hvernig eftirspurnin verði þegar líða tekur á haustið og veturinn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .