Útgerðarfélagið Guðmundur Runólfsson hf., sem gerir út tvö skip og vinnslu í Grundarfirði, hagnaðist um 457 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 5 milljóna hagnað árið áður. Breytingin á milli ára skýrist einkum af því að gengismunur var jákvæður um 182 milljónir í fyrra en neikvæður um 444 milljónir árið 2020.

Velta félagsins lækkaði um 3,2% á milli ára og nam tæplega 2,3 milljörðum króna. Framlegð dróst saman um 22% frá fyrra ári og nam 587 milljónum. Laun og launatengd gjöld námu 928 milljónum en 85 stöðugildi voru að meðaltali yfir árið.

Í skýrslu stjórnar segir að umfang beinna viðskipta félagsins á átakasvæðum í Austur Evrópu hafi ekki verið veruleg. Stjórnendur hafa ekki lagt mat á möguleg afleidd áhrif en telja möguleg heildaráhrif á þessum tímapunkti vera óveruleg.

Fram kemur að félagið hafi fjárfest fyrir tæpar 100 milljónir króna á síðasta ári, þá einna helst í byggingu á nýju húsnæði félagsins fyrir netaverkstæði.

Eigir námu rúmum 6,2 milljörðum króna í lok síðasta árs. Eigið fé var um 2,3 milljarðar og eiginfjárhlutfall félagsins var um 36,5% samanborið við 31,1% í árslok 2020. Stjórn félagsins leggur til að greiddar verða út 175 milljónir í arð í ár. Félagið er í eigu erfingja Guðmundar Runólfssonar.