„Ef við horfum yfir, það sem ég kalla blóði drifna hagsögu Íslands, þá sjáum við að ofþensla og samdráttur virðist vera innbyggt inn í kerfið og skiptast á yfir lengri og skemmri tímabil. Undirrót margs þarna eru þessi óstöðugleiki á vinnumarkaði.“

Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í viðtali í nýju hlaðvarpi Þjóðmála. Halldór Benjamín er fyrsti gestur hlaðvarpsins.

Í þættinum er meðal annars rætt um launahækkanir. Halldór Benjamín segir að það felist almannagæði í því að halda launahækkunum hóflegum og innan þess svigrúms sem atvinnulífið ræður við.

„Ég fullyrði að það sé eitt stærsta hagsmunamál íslenskra heimila að við náum utan um vinnumarkaðinn og öll skynsemisrök hníga að því að líta til Norðurlanda og læra af þeim. Við eigum ekki að eyða um efni fram heldur ráðstafa því sem er til skiptanna hverju sinni. Við getum litið nokkur ár og áratugi aftur í tímann og við vitum hvað gerist ef við förum og langt og ráðstöfum verðmætum sem eru ekki til skiptanna. Sú leið er fullreynd.“

Í þættinum er jafnframt rætt um atvinnuleysi, sem Halldór Benjamín segir að sé eitur í beinum landsmanna, og það hvort að úrlausnir ríkisins til atvinnusköpunar séu sjálfbærar. Þá er einnig fjallað um lækkun vaxta og áhrif þeirra á bættan hag heimila, áherslur atvinnulífsins í komandi kosningum og mikilvægi þess að vaxa út úr núverandi kreppu í stað þess að hækka skatta. Í lok þáttarins er einnig rætt um það hvort að næg breidd sé í atvinnulífinu hér á landi og í framhaldinu um samkeppnishæfni Íslands.

Þáttinn er hægt að nálgast á Spotify og öðrum helstu hlaðvarpsefnisveitum.