Hagnaður Hampiðjunnar nam 11,1 milljónum evra á fyrri helmingi ársins, sem samsvarar um 1.465 milljónum króna. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins tæpum 5,4 milljónum evra.

Í upphafi ársins gekk Hampiðjan hf. frá kaupum á P/F Von í Færeyjum. Kaupin hafa mikil áhrif á samstæðuna enda P/F Von stórt félag í framleiðslu og sölu á veiðarfærum og íhlutum þeirra ásamt framleiðslu á fiskeldiskvíum og annarri þjónustu við fiskeldi.

Rekstrartekjur Hampiðjunnar ríflega tvöfölduðust milli ára og námu 59,5 milljónum evra og framlegð jókst einnig verulega. Var hún 9,5 milljónir evra á fyrri helmingi síðasta árs og var 17,3 milljónir evra í ár.

Hagnaður fyrir skatta nam 12,4 milljónum evra, en var 5,6 milljónir evra í fyrra.

Eignir Hampiðjunnar námu í júnílok 192,1 milljón evra, eigið fé nam 90,2 milljón og skuldir námu 101,9 milljónum evra. Þar af eru langtímaskuldir 61 milljón evra.