Leiðandi hagvísir Analytica reyndist nær óbreyttur milli mánaða í júlí-ágúst síðastliðinn. Í tilkynningu frá ráðgjafafyrirtækinu Analytica segir að vísbendingar séu um að hægja sé á lækkun hagvísisins sem hafi verið á niðurleið í 18 mánuði samfleytt. Of snemmt sé þó að segja til um hvort botninum hafi verið náð.

„Það eru enn talsverðar líkur á stöðnun eða samdrætti inn á árið 2020,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Þrír af sex undirliðum lækka frá í júlí en mesta framlag til lækkunar hefur þróun ferðamannafjölda og vöruinnflutnings. „Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er enn sterk en mikil óvissa sérstaklega í ferðaþjónustu. Þá eru áfram áhættuþætti í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.“

Þeir sex undirþættir hagvísisins sem um er að ræða eru aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Þeir liðir sem lækkuðu í júlí-ágúst eru debetkortavelta, innflutningur og ferðamannafjöldi.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum í því augnamiði að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.