Hagvöxtur í Kína mældist aðeins 6,5% milli ára á þriðja ársfjórðungi og hefur ekki verið lægri síðan í alþjóðlegu fjármálakrísunni fyrir áratug. Financial Times greinir frá .

Æðsti embættismaður efnahagsmála, Liu He, sagði landið standa frammi fyrir áskorunum, en fullyrti að stöðugur hagvöxtur væri framundan, í viðleitni til að auka tiltrú á horfur í efnahagsmálum.

He sagði auðvelt að sjá vandræði með því að horfa aðeins á lítinn hluta hagkerfisins eða stutt tímabil í einu, en væri heildarmyndin skoðuð í víðu samhengi, væri framtíð landsins afar björt.

Hinn dræmi hagvöxtur, sem er lægri en spáð hafði verið, hefur aukið þrýsting á Xi Jinping, forseta Kína, sem tekst nú á við afleiðingar áframhaldandi tollastríðs við Bandaríkin.

He sagði áhyggjur af tollastríðinu hinsvegar ýktar, sálfræðileg áhrif þess væru mun meiri en hin raunveruleg áhrif, og viðræður við Bandaríkin stæðu yfir.