Þótt björgunaraðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna vegna áhrifa heimsfaraldursins hafi verið áhrifaríkar hingað til eru ekki allir á einu máli um ágæti þeirra.

Gagnrýnendur hafa meðal annars vísað til þess að lögum samkvæmt er bankanum meinað að kaupa verðbréf fyrirtækja. Til að komast hjá því banni var settur á stofn sérstakur sjóður í umsjón eignastýringarfyrirtækisins BlackRock sem sér um kaupin, sem síðan er handstýrt og fjármögnuð af bankanum.

Forsvarsmenn seðlabankans hafa borið fyrir sig „fordæmalausum og krefjandi aðstæðum“, en samkvæmt lögum um bankann hefur hann í slíkum aðstæðum víðtækar heimildir til lánveitingar.

Auk lagadeilunnar hafa sumir áhyggjur af því fordæmi sem sett sé með aðgerðum bankans. Þegar í þær hafi verið ráðist einu sinni verði mun auðveldara að réttlæta þær aftur síðar. Eftir fjármálakrísuna 2008 réðist bankinn í viðamikil skuldabréfakaup kennd við magnbundna íhlutun (e. quantitative easing), og efnahagsreikningur hans náði áður óþekktum hæðum. Þegar bankinn hóf síðan að draga úr umfangi eignasafnsins brást markaðurinn illa við.

Þegar allt kemur til alls eru hlutabréfamarkaðir einfaldlega nánast ólýsanlega flókin fyrirbæri, og sagan hefur sýnt að væntingar og tíðarandi spila ekki síður stórt hlutverk í verðmyndun en undirliggjandi hagstærðir og forsendur, og þá sérstaklega við aðstæður sem eiga sér ekki hliðstæðu sem hægt er að rannsaka og nota sem leiðarvísi.

Tíminn einn mun leiða í ljós hvort innistæða er fyrir þeirri viðspyrnu sem hlutabréfamarkaðir stærsta hagkerfis heimsins hafa upplifað síðastliðinn ársfjórðung.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .