Um 8,9 milljarða dollara hallarekstur var á ríkissjóði Sádi-Arabíu á öðrum ársfjórðungi. Upphæðin er andvirði um 1.079 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkissjóði Sádi-Arabíu en sagt er frá á vef Bloomberg .

Afkoma ársfjórðungsins var neikvæð um 33,5 milljarða ríjala sem er gjaldmiðillinn þar í landi. Afkoman á sama tíma í fyrra var neikvæð um 7,4 milljarða ríjala. Hallinn hefur því rúmlega fjórfaldast.

Fjárútlát jukust um fimm prósent samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Á meðan féllu tekjur af olíusölu um fimm prósent og aðrar tekjur um fjögur prósent. Hagkerfi landsins var í lægð árið 2017 en eyðsla ríkisins virðist vera að koma hjólunum af stað á ný. Landsframleiðsla jókst lítillega í fyrra og búist er við 1,7% vexti í ár eftir samdrátt ársins 2017.

Stærstur hluti hinna auknu útgjalda hefur runnið í hin ýmsu félagsmálefni. Þar á meðal má nefna styrki til námsmanna, dagpeninga handa ríkisstarfsmönnum og verkefni sem gefa lægri og millistétt aukið fjármagn.