Ársfundur Háskóla Íslands stendur nú yfir, en skólinn hefur birt helstu lykilstærðir í ársreikningi síðasta árs. Þar kemur fram að tekjur skólans hafi aukist úr tæplega 5,6 milljörðum árið 2015 í 6,5 milljarða árið 2016. Þar til viðbótar hafi framlag til skólans úr ríkissjóði numið rúmum 12,9 milljörðum, sem er aukning frá tæpum 12,2 milljörðum árið áður.

En á sama tíma hafi gjöldin aukist úr tæpum 17,8 milljörðum í rúma 19,6 milljarða, svo rekstrarniðurstaðan var neikvæð um 245 milljónir króna á síðasta ári. Árið 2015 var hún einungis neikvæð um 2,46 milljónir. Til viðbótar þurfti skólinn að greiða fjármunagjöld á síðasta ári sem námu rúmlega 249 milljónum króna, en árið 2015 voru þau einungis rúmar 127 milljónir.

Heildartapið 494 milljónir

Því er heildarhallinn af rekstrinum tæpar 494 milljónir króna árið 2016, meðan heildartapið nam tæpum 130 milljónum árið 2015. Er það aukning um rúmlega 380% milli ára. Eignir skólans eru metnar á 2,83 milljarða á síðasta ári, sem er töluverð lækkun frá árinu 2015 þegar þær voru rúmar 3,3 milljarða virði. Skuldirnar jukust á sama tíma eða úr tæpum 2,32 milljörðum í rúmar 2,33 milljarða.

Ársfundurinn sem hófst fyrir um klukkutíma hófst með ávörpum Kristjáns Þórs Júlíussonar mennta- og menningarmálaráðherra og Jón Atla Benediktssonar, rektors Háskólans.

Rúmlega 13 þúsund nemendur

Aðrar tölur sem skólinn birtir eru að heildarfjöldi nemenda á síðasta ári var 13.307, þar af voru tæp 65% grunnnemar, tæp 24% meistaranemar, tæp 4% doktorsnemar og tæp 8% starfs- og viðbótarnemar.

Erlendir nemendur voru 1.355, sem er rétt rúmlega tíundi hluti allra nemenda. Heildarfjöldi starfsfólks voru 1.614, þar af 775 titlaðir sem akademískir starfsmenn, en 889 eru listaðir sem annað starfsfólk. Hlutfall nemenda á hvern kennara í skólann er þá 18,4. Skólinn er sagður vera í 222. sæti á lista yfir bestu skóla heims samkvæmt alþjóðlegum staðli, og 15. sæti meðal norrænna háskóla.