Vöruviðskiptahalli Íslands nam 46,6 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins að því er Hagstofan greinir frá. Í júní voru fluttar inn vörur fyrir 46 milljarða og inn fyrir 74,6 milljarða svo hallinn var 28,6 milljarðar króna. Er það 41,6% aukning frá júní 2018 þegar vöruviðskiptin voru óhagstæði um 20,2 milljarða króna, á gengi þess árs.

Vöruviðskiptahallinn í júní 2019 var því 8,4 milljörðum króna meiri en á sama tíma fyrir ári. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn í mánuðinum 19,4 milljörðum króna, samanborið við 18,1 milljarð í júní 2018.

Á tímabilinu janúar til júní 2019 voru fluttar út vörur 333,4 milljarða króna en inn fyrir 380 milljarða. Halli á vöruskiptum við útlönd nam því eins og áður sagði 46,6 milljörðum króna. Á sama tíma fyrir ári voru vöruviðskiptin óhagstæð um 84 milljarða á gengi hvors árs, svo vöruviðskiptahallinn hefur dregist saman um 44,5%, eða nærri helming.

Vöruviðskiptajöfnuðurinn frá janúar til júní var því 37,4 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma fyrir ári síðan. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn hins vegar 57,3 milljörðum króna á tímabilinu janúar til júní 2019, en 67,2 milljörðum króna fyrir sama tímabil 2018.

Aukinn útflutningur sjávarafurða

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 var verðmæti vöruútflutnings 46,2 milljörðum króna hærra en á sama tímabili árið áður, eða 16,1% á gengi hvors árs.

Iðnaðarvörur voru 47,5% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 2,8% hærra en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 38,4% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 10,8% hærra en á sama tíma árið áður.

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 var verðmæti vöruinnflutnings 8,8 milljörðum króna hærra en á sama tímabili árið áður, eða 2,4% á gengi hvors árs. Innflutningur jókst mest á unnum hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingavörum. Á móti kom minni innflutningur á flutningatækjum.