Í marsmánuði nam vöruviðskiptahallinn við útlönd 16,1 milljarð króna, en í mars fyrir ári voru vöruviðskiptin óhagstæð um 22,1 milljarð, að því er Hagstofan greinir frá. Voru þá fluttar út vörur fyrir 39,5 milljarða og inn fyrir 55,6 milljarða, en ef horft er á fyrstu þrjá mánuði ársins voru fluttar inn vörur fyrir 108,6 milljarða og inn fyrir 146,1 milljarð, svo vöruskiptahallinn nam 37,5 milljörðum á tímabilinu.

Þó dregið hafi úr hallanum í marsmánuði milli ára er samt aukning milli áranna ef horft er fyrstu þrjá mánuðina, en þá fór hallinn úr 25,6 milljörðum króna. Var því aukningin 11,9 milljarðar á milli áranna.

Hvort tveggja inn og útflutningur dróst saman

Verðmæti vöruútflutnings á fyrstu þremur mánuðum ársins var 23,9 milljörðum króna lægri eða sem nemur 18,1%, heldur en á sama tíma í fyrra. Er þá miðað við gengi hvors árs fyrir sig. Námu iðnaðarvörur 58,9% alls útflutnings sem er 3,2% lækkun milli ára, en verðmæti útflutnings sjávarafurða lækkaði um 35,4% milli ára, en þær voru 34,5% alls vöruútflutnings. Segir Hagstofan það megi rekja til verðlækkunar sem og áhrifa af verkfalli sjómanna.

Verðmæti vöruinnflutnings lækkaði einnig milli ára, um 12,1 milljarði, eða um 7,6%, og er þá miðað við gengi hvors árs. Dróst fyrst og fremst saman innflutningur á fjárfestingavörum, neysluvörum og flugvélum saman, en á móti þá jókst innflutningur á eldsneyti og hrá- og rekstrarvörum.