Í árseikningi Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. segir að áætlað handbært fé samstæðunnar muni klárast ef tekjur falla um 15,5% á árinu en allir aðrir liðir, þar með talið rekstrargjöld haldist óbreytt, miðað við sjóðstreymisáætlun fyrir 2020.

Samkvæmt sjóðstreymisáætluninni er áætlað að handbært fé samstæðunnar til ráðstöfunar í árslok 2020 verði að fjárhæð 191 milljón króna. Í árslok 2019 nam handbært fé samstæðunnar 770 milljónum króna.

Stjórnendur samstæðunnar hafa þegar farið í aðgerðir til að bregðast við áhrifum Covid sem felast í því að draga saman rekstrarkostnað eins og hægt er og leggja allt kapp á að halda tekjum með því að færa þá viðburði sem ekki hefur verið hægt að halda á vormánuðum yfir á haustið 2020.

Í ársreikningnum segir að umtalsverður árangur hafi náðst í endurbókun viðburða þótt óvissa sé enn mikil um hve langvarandi eða djúpstæð áhrif Covid verða á innlent og alþjóðlegt viðburðahald. Breytilegur kostnaður vegna viðburðahalds í Hörpu mun lækka verulega og fylgja minnkandi tekjum og þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að lækka fastan launakostnað samstæðunnar með breyttu starfshlutfalli, frestun á ráðningum í störf sem losna, orlofstöku og svo framvegis.

Samstæðan mun jafnframt nýta öll þau úrræði sem stjórnvöld bjóða upp á fyrir atvinnulífið í tengslum við þessar ófyrirséðu aðstæður. Eigendur Hörpu samþykktu samkvæmt fjárlögum íslenska ríkisins og fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar að leggja Hörpu til 450 milljóna króna rekstrarframlag á árinu 2020 sem innt verður af hendi með mánaðarlegum innborgunum.

1,2 milljarða tekjur af starfsemi Hörpu

Tekjur af starfsemi Hörpu námu 1,2 milljörðum á síðasta ári og hækkuðu um 38 milljónir milli ára. Rekstrarframlag eigenda hækkaði um 50 milljónir króna og nam 450 milljónum á árinu. Rekstrartekjur síðasta árs námu því alls 1,66 milljörðum króna.

Rekstrargjöld Hörpu voru alls 1,63 milljarðar króna á síðasta ári en þau hækkuðu um 96 milljónir milli ára. Húsnæðiskostnaður jókst um 59 milljónir og nam um 655 milljónum króna. Þar af voru fasteignagjöld 308 milljónir en þau hækkuðu um 40,5 milljónir frá fyrra ári. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 9,5% eða um 46 milljónir og námu alls um 524 milljónum á árinu en stöðugildum fjölgaði um þrjá.

Rekstrarhagnaður á síðasta ári var um 34 milljónir króna en ef horft er framhjá rekstrarframlagi eigenda verður rekstrarafkoman neikvæð um 416 milljónir króna.

Virðisrýrnun fasteignar nam um 7,1 milljarði króna sem orsakast af breyttu reikningshaldslegu mati. Tap fyrir skatta var því alls um 7,4 milljarðar króna. Reiknaður tekjuskattur var neikvæður um 1,5 milljarða og heildartap því 5,9 milljarðar.

Bókfært verð fasteignarinnar nam 9,3 milljörðum króna í árslok 2019 eftir matsbreytingar en var 16,6 milljarðar í lok árs 2018. Eignir samstæðunnar voru því alls 32,8 milljarðar króna í árslok.

Velta af ráðstefnum, fundum og veislum aldrei verið hærri

Á árinu 2019 voru haldnir 1.332 viðburðir í Hörpu samanborið við 1.430 á árinu 2018 og munaði þar mest um minni umsvif í tónlistarhátíðum og viðburðum fyrir ferðamenn.

Haldinn var 721 listviðburður, þ.e. tónleikar, leiksýningar og listsýningar og voru tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar af 108 talsins. Viðburðir fyrir börn og fjölskyldur voru 144 og tvöfölduðust milli ára. Einnig voru haldnar 411 ráðstefnur, fundir og veislur sem er sambærilegt og árið 2018 en velta þessa viðburðaflokks hefur aldrei verið hærri.

Alls voru haldnir 430 viðburðir og sérstakar leiðsagnir fyrir ferðamenn en að auki var boðið upp á rúmlega 800 almennar leiðsagnir um húsið. Um 232 þúsund aðgöngumiðar voru afgreiddir í gegnum miðasölu Hörpu á árinu samanborið við um 292 þúsund árið áður.

Fjöldi heimsókna í Hörpu minnkaði á árinu vegna minnkaðs flugframboðs og samdráttar í ferðaþjónustu og er hann áætlaður tæplega 2 milljónir.