Kjarasamningur framhaldsskólakennara losnaði 31. ágúst 2016. Ári áður féll gerðardómur vegna BHM félaganna 17, sem hafði þau áhrif að kjör kennara hækkuðu í takt við þann úrskurð. Það var vegna þess að í samningi kennara var ákvæði um kjör kennara myndu fylgja launaþróun annarra opinberra stétta.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir að vegna þessa hafi verið gert samkomulag við ríkið í lok október síðasta árs.

„Það samkomulag var til eins árs og í grófum dráttum má segja að það hafi fjallað um friðarskyldu," segir Guðríður. „Við vorum að skuldbinda okkur til þess að fara ekki í verkfall á þeim tíma sem samkomulagið var í gildi gegn því að við fengjum sömu launahækkanir og BHM félögin fengu. Samkomulag okkar við ríkið féll úr gildi 31. október síðastliðinn."

Guðríður segir að á ríflega einu ári hafi verið haldnir 19 fundir með samninganefnd ríkisins. Nú sé hins vegar svo komið Félag framhaldsskólakennara hafi vísað sínum samningum til ríkissáttasemjara.

„Það gerum við af því að það er ekkert að frétta við samningaborðið. Ég skynja að umboð samninganefndar ríkisins er sama og ekki neitt. Það er verulegt áhyggjuefni."

Stuttir hveitibrauðsdagar

Spurð hvort hún telji að framhaldsskólakennarar muni fara í verkfall svarar Guðríður: "Ég mun gera það sem þarf til þess að við náum árangri. Við erum ekki komin á þann stað sem við teljum okkur eiga að vera á í samanburði við aðra launþega í landinu og ég er tilbúin að ganga mjög langt til þess að svo verði. Ég ber þá von í brjósti að ný ríkisstjórn muni gera það sem gera þarf til að koma kjarasamningum, bæði háskólamenntaðra og annara, í gegn. Það verða ekki langir hveitibrauðsdagarnir hjá nýrri ríkisstjórn því við stöndum við dyrnar — við höngum á húninum."

Samningar grunnskólakennara losna eftir viku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .