Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa, segir að síðasta vika hafi verið stærri en Netmánudagsvikan (e. Cyber Monday ) fyrir áramót.

„Það er alveg ótrúlegt því venjulega er Cyber Monday -vikan sú langstærsta hjá okkur," segir Guðmundur. „Við seljum auðvitað mest af matvöru en við höfum sé mjög mikla aukningu á sérvöru eins og púsluspilum, borðspilum, kubbum og bókum. Fólk er að lauma þessum vörum í matarkörfuna.

Púsluspil eru að seljast betur en hefðbundin borðspil. Í síðustu viku seldum við vel á annað þúsund púsl, sem er meira en við seldum fyrir síðustu jól. Það er líka merkilegt að þetta voru tæplega 600 mismunandi púsl sem við seldum."

Guðmundur segir að einnig hafi mikið selst af bókum.

„Það er reyndar ansi merkilegt að á topp tíu listanum yfir mest seldu bækurnar í síðustu viku er einungis ein skáldsaga. Á listanum eru aðallega krossgátubækur, litabækur, föndurbækur, sem og þrauta- og afrþreyingabækur fyrir börn eins og Disney -bækurnar Þankastrik. Mest selda bókin í síðustu viku var pakki, sem inniheldur þrjár krossgátubækur.

Að sögn Guðmundar eru það ekki bara púsl, spil og bækur sem seljast vel þessa dagana.

„Hár- og skeggsnyrtar hafa selst óvenju vel og er ástæðan augljós. Fólk kemst ekki í klippingu og er því að bjarga sér heima. Þetta endurspeglar ástandið í samfélaginu mjög vel."