Í nýju húsnæði bardagaklúbbsins Mjölnis í Öskjuhlíð er ekki aðeins aðstaða til æfinga og keppni í blönduðum bardagalistum, heldur er þar einnig að finna kaffihús, bar og veitingastofu sem heitir Drukkstofa Óðins, en drukkstofa er gamalt íslenskt orð yfir krá. Drukkstofan er félagsmiðstöð Mjölnis og helsti samverustaður klúbbsins, en staðurinn er opinn öllum.

„Félagslífið í Mjölni hefur alltaf verið ótrúlega öflugt,“ segir Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis. „Þetta er samkomustaður fyrir klúbbinn og alla þá sem vilja fá sér öl, prótein hristinga fyrir eða eftir æfingu, eða kaffi.“ Í Drukkstofunni komast 100 manns fyrir og er hún leigð út fyrir ýmsa viðburði auk þess sem þar eru sýndir bardagaviðburðir í beinni útsendingu, til dæmis bardagakvöld UFC. Allar innréttingar á barnum eru sérhannaðar í víkingastíl af grafíska hönnuðinum Finnboga Þór Erlendssyni.

Ælandi nautshöfuð og Mjölnis bjór

Jón Viðar er spenntur fyrir samstarfi félagsins við Ölgerðina um barinn og segir að ýmsar bollaleggingar séu í gangi. „Þeir nota Bola bjórinn mikið og ein hugmynd er að skera út nautshöfuð og setja bjórkrana inn í það, þannig að þegar tosað er í hornin ælir nautið út Bola. Það verður hægt að bjóða upp á bjór í drykkjarhornum og svo er verið að skoða þann möguleika á að brugga sérstakan Mjölnis bjór í samstarfi við Ölgerðina eða Borg Brugghús,“ segir Jón Viðar.

„Eins og þú heyrir reynum við að hafa svona töffara-víkingabrag á þessu. Þetta er líklega harðasti barinn í bænum. Við erum ekki mikið í litríkum kokteilum eða neitt svoleiðis. Það er bannað að panta lítinn bjór, kokteila eða vatnsglas. Þeim verður kastað út sem gera það,“ segir Jón Viðar hlæjandi.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um fjármál og möguleika á endurreisn Fréttatímans.
  • Undirboð á íslenskum tannlæknamarkaði.
  • Áhrif skattahækkana á ráðstefnumarkaðinn.
  • Gríðarleg aukning launakostnaðar Landspítalans.
  • Breytingar á samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar.
  • Væntanlegar arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkisins.
  • Áhrif breytinga í lágmarkslaunum á rekstur veitingastaða í Bandaríkjunum.
  • Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, er í ítarlegu viðtali.
  • Risaurriðaveiðar í Þingvallavatni.
  • Nýtt íslensk tölvuleikjafyrirtæki.
  • Nýjar lausnir Kóða, sem rekur Kelduna, varðandi fjármögnun minni fyrirtækja.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um verðbréfaeign lífeyrissjóða.
  • Óðinn skrifar um Seðlabankann og Samherjamálið.