Þó nokkur samdráttur varð í hagnaði stærstu heildsala landsins í fyrra. Árið reyndist íslenskri verslun almennt erfitt vegna hægari fjölgunar ferðamanna, aukinnar samkeppni, styrkingar krónunnar og launahækkana. Fjölmörg fyrirtæki starfa í íslenskri heildverslun, en markaðurinn einkennist af sex stórum félögum og svo mörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum með undir 7 milljarða í veltu. Samanlagður hagnaður sex stærstu fyrirtækjanna – ÍSAM, Parlogis, Innnes, Johan Rönning, Banana og 1912 – nam 681 milljón króna í fyrra. Dróst hagnaðurinn saman um 75% milli ára eða um rúmlega tvo milljarða. Dalsnes, sem meðal annars á Innnes, er hér tekið út fyrir sviga þar sem um er að ræða eignarhaldsfélag í heildverslun og fasteignamarkaði. Velta fyrirtækjanna sex nam samtals 54,2 milljörðum króna í fyrra.

Dróst veltan lítillega saman milli ára, eða um rúman milljarð. Í almennri heildverslun, að undanskilinni verslun með vélknúin ökutæki, nam veltan 660 milljörðum samkvæmt gögnum Hagstofunnar og dróst saman um 4,4% milli ára að raunvirði. Heildverslun með matvæli, drykkjarvöru og tóbak velti rúmlega 186 milljörðum og dróst veltan saman um tæp 13% milli ára að raunvirði. Svo mikill samdráttur milli ára hefur ekki sést í meira en áratug. Er veltan í takt við hægari vöxt hagkerfisins, en hagvöxtur í fyrra var 4% borið saman við 7,4% árið áður.

Stærstu fyrirtækin í heildverslun eru einkum matvöru- og dagvöruheildverslanir og flytja inn flest af þekktustu vörumerkjunum sem sjást í hillum íslenskra verslana. Íslensk-Ameríska (ÍSAM), sem er stærsta fyrirtækið í heildsölu á Íslandi með um 12 milljarða í veltu, tapaði 301 milljón króna á síðasta ári. Árið áður hagnaðist félagið um 262 milljónir. Innnes hagnaðist um 131 milljón og dróst hagnaðurinn saman um yfir 70% frá fyrra ári, þegar félagið hagnaðist um 465 milljónir. Bananar, dótturfélag Haga sem flytur inn ávexti og grænmeti, hagnaðist um 757 milljónir í fyrra samanborið við 958 milljónir árið áður. Þá hagnaðist 1912 um 217 milljónir samanborið við 380 milljónir árið áður, en félagið er móðurfélag Nathan & Olsen og Ekrunnar. Samanlögð velta fyrirtækjanna fjögurra nam 35,6 milljörðum í fyrra og dróst saman um tæp 6% milli ára.

Svipaða sögu er að segja af flestum heildsölum í öðrum greinum hagkerfisins. Til að mynda tapaði Parlogis, önnur stærsta heildverslun landsins sem sinnir alhliða vörustjórnun fyrir fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum, 123 milljónum króna í fyrra. Árið áður hagnaðist félagið um 72 milljónir. Þó virðist sem hagur heildverslana á sviði byggingavara, efnavara, málmvara, rafbúnaðar og varanlegra neysluvara hafi vænkast á síðasta ári.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu . Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .