Íslensk hátæknifyrirtæki, sem tengjast sjávarútvegi, hafa skipað sér í fremstu röð á alþjóðavísu. Samkvæmt athugun Sjávarklasans eru í dag um 65 tæknifyrirtæki starfandi í landinu. Allt eru þetta fyrirtæki sem bjóða upp á tæknilausnir sem þróaðar eru af þeim sjálfum. Í mörgum tilfellum eru þetta fyrirtæki sem leiða fjórðu iðnbyltinguna á Íslandi.

Marel er stærsta og líklega þekktasta íslenska hátæknifyrirtækið en Skaginn 3X , Hampiðjan, Curio og Valka hafa einnig komið ár sinni vel fyrir borð. Samkvæmt greiningu Sjávarklasans nam velta þessara fimm fyrirtækja tæplega 40 milljörðum króna í fyrra og er þá einungis horft til starfsemi er lýtur að sjávartengdum greinum. Velta hinna sextíu fyrirtækjanna var samanlagt um 30 milljarðar króna.

70 milljarða velta

Hátæknifyrirtæki, sem þróa búnað og tæki fyrir sjávarútveg, veltu því samtals 70 milljörðum króna í fyrra. Þessi fyrirtæki eru því augljóslega orðin mjög mikilvæg fyrir íslenskt samfélag. Ekki bara skapa þau þjóðinni gjaldeyristekjur með sölu á búnaði á alþjóðamörkuðum heldur hafa í fyrirtækjunum orðið til verðmæt störf fyrir fólk með ýmiskonar menntun og sérþekkingu.

Flest, ef ekki öll þessarar tæknifyrirtækja, eiga sér merka sögu. Fyrirtækið Valka, sem sérhæfir sig í hönnun og sölu á heildstæðri kerfislausn fyrir fiskiðnaðinn, varð til að mynda til árið 2003 í bílskúrnum hjá systur Helga Hjálmarssonar, stofnanda og núverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Núna í apríl tilkynnti Valka að undirritaður hefði verið 2,5 milljarða króna samningur við Samherja um kaup á hátæknibúnaði fyrir landvinnslur .

Árið 2012 nam velta Völku um 200 milljónum króna en á þessu ári stefnir allt í að veltan fari yfir 2 milljarða. Þegar Helgi er spurður um tækifærin framundan segir hann fjórðu iðnbyltinguna vera sér ofarlega í huga.

„Við sjáum fram á að vélmenni og sjálfvirknin muni halda áfram að bæta ferla í fiskvinnslu. Það eru til dæmis mikil tækifæri í að auðvelda og bæta ákvarðanatöku með fjárfestingum í gervigreind,“ segir Helgi.

Skaginn 3X er annað fyrirtækið sem vakið hefur mikla athygli og sópað að sér viðurkenningum. Á rúmu ári hefur fyrirtækið hlotið Nýsköpunarverðlaun Íslands, Útflutningsverðlaun forseta Íslands, Íslensku sjávarútvegsverðlaunin fyrir verðmætasköpun í fiskvinnslu, sem og Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Skaginn 3X er sameiginlegt vörumerki þriggja systurfyrirtækja: Skagans hf., Þorgeirs & Ellerts hf. og 3X Technology ehf. Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X , segir tækni vera grunnstefið í starfsemi Skagans 3X .

„Við getum ekki verið samkeppnishæfir nema vera á öðru tæknistigi en samkeppnisaðilar okkar. Fjórða iðnbyltingin hófst fyrir löngu hjá okkur.

Nánar er fjallað um málið í nýju tölublaði Frjálsrar verslunar , þar sem sjónum er meðal annars beint að fjórðu iðnbyltingunni. Hægt er gerast áskrifandi með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected] .