Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, telur stýrivaxtahækkun Seðlabankans í ágúst hafa verið ótímabæra. Þrátt fyrir að staða heimilanna sé almennt sterk sé enn talsverð óvissa uppi meðal ýmissa atvinnugreina.

„Vaxtahækkunin í maí hefur vissulega ýtt undir að heimilin fari í fastvaxtalán, sem hefur þau tvíþættu áhrif að draga annars vegar úr ógn gagnvart fjármálastöðugleika og efnahag heimilanna og hins vegar að það færir áhrif vaxtahækkunarferlis svolítið framar, vegna þess að fastvextirnir eru hærri og þar með eykst greiðslubyrði heimilanna strax og töluvert umfram það sem 25 punkta hækkun stýrivaxta hefði gert ein og sér. Á hinn bóginn er staða fyrirtækjanna og fjármögnun þeirra afar misjöfn. Mörg þeirra fyrirtækja sem hafa átt undir högg að sækja eru að töluverðu leyti með fljótandi, stutta fjármögnun. Við erum í tímabundnu ástandi þar sem óvissa þessara fyrirtækja er óvenju mikil en útlitið ætti að skýrast talsvert á næstu vikum eða mánuðum. Það er því okkar mat að það hefði verið skynsamlegra að bíða aðeins," segir Jón Bjarki.

Hann bendir á að peningastefnunefnd hafi fleiri verkfæri í kistunni sem ef til vill hefðu dugað að svo stöddu.

„Það hefði verið hægt að beita framsýnni leiðsögn og þannig varað við því að hækkun sé yfirvofandi. Þannig hefði mátt hlífa fyrirtækjum í viðkvæmri stöðu, þar sem lægri vextir styðja við reksturinn á komandi vikum en leiðsögnin hefur á sama tíma áhrif til hækkunar á fastvöxtum, væntingum, neysluhegðun og svo framvegis. Sveiflur í eftirspurn eftir lánsformum bera það greinilega með sér að heimilin bregðast við breyttum vaxtavæntingum þrátt fyrir að væntingar um vaxtaferilinn á hverjum tíma séu verðlagðar inn í fastvextina."

Sjá einnig: Miklar sviptingar á íbúðalánamarkaði

Að hans sögn endurspegla sveiflurnar undanfarið bætta stöðu lántakenda. „Sveiflurnar endurspegla mikla breytingu sem hefur orðið á íbúðalánamarkaði, betri hag lántaka og stöðu gagnvart lánveitenda. Það er óhætt að segja að markaðurinn sé orðinn lántakamarkaður. Það er orðið auðveldara og ódýrara að færa sig á milli lánaforma og lánastofnana en var fyrir nokkrum árum - og hvað þá fyrir tveimur áratugum þegar það var bara ein tegund ríkislána í boði. Ég hugsa þó að þessi nýi fjölbreytilegi íbúðalánamarkaður sé enn að slíta barnsskónum og að almenningur sé enn svolítið að læra hvernig hann eigi að haga lántökuákvörðunum sínum þegar frelsið og fjölbreytileikinn er svona mikill. Ætli þróunin verði ekki sú að þegar þetta umhverfi verði búið að festa sig meira í sessi verði þessar ákvarðanir ekki eins sveiflukenndar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .