Ríkisskattstjóri, tollstjóri, Samgöngustofa, Vinnumálastofnun og Lögreglustjórinn á Austurlandi munu standa fyrir sameiginlegri eftirlitsaðgerð við komu farþegaferjunnar Norrænu til hafnar á Seyðisfirði þann 16. Apríl næstkomandi.  Í tilkynningu segir að tilgangur eftirlitsins sé að athuga innflutning og skráningu á hópbifreiðum sem komi hingað til lands á erlendum skráningarmerkjum og ætlaðar eru til atvinnustarfsemi hér á landi.

Undanfarin ár hefur borið töluvert á hópbifreiðum í erlendri eigu sem stundi svartri starfsemi hér á landi. Viðskiptablaðið fjallaði um málið á dögunum og ræddi við Harald Teitsson, formann Félags Hópferðaleyfishafa og framkvæmdastjóra Teits Jónssonar ehf. Hann segir svarta starfsemi hafa vaxið hratt og náð nýjum hæðum að nú um mundir. Hann áætlar að starfsemin velti hundruð milljónum króna í rútugeiranum einum en talan hlaupi á milljörðum þegar horft er til ferðaþjónustunnnar í heild.

Haraldur sagði ennfremur að ekkert eftirlit hafi verið með þessari starfsemi hvorki af hálfu stofnanna hins opinbera né samtökum launþega.

Hið sameiginlega eftirlit þann 16. apríl nk. mun skv. tilkynningu snúa að ökutækjum, ökumönnum þeirra og ef við á öðrum starfsmönnum viðkomandi fyrirtækis. Eru aðilar sem huga á atvinnurekstur ökutækja á erlendum skráningarmerkjum hvattir til að kynna sér viðeigandi lög og reglur og ganga úr skugga um að lögbundin skilyrði séu uppfyllt.