Stjórn flugfélagsins Norwegian Air Shuttle ASA, lággjaldaflugfélagsins norska sem stofnað var árið 2002, hefur hafið leit að nýjum forstjóra fyrir félagið.

Núverandi forstjóri, og stofnandi félagsins Bjørn Kjos er sagður hafa það á tilfinningunni að hann sé að ganga fram af sér og að hann vonist til að vera ekki lengur í starfinu eftir þrjú ár. Kjos, sem er 72 ára gamall, hefur verið forstjóri félagsins frá stofnun þess.

Mögulegir arftakar sem Bloomberg fréttastofan nefnir til sögunnar gætu verið dóttir hans, flugstjórinn Anna Helena Kjos sem og forstjóri norska skipafélagsins Hurtigruten, Daniel Skjeldam.

Hlutabréf í félaginu hafa hækkað um 46% það sem af er ári, og er það talið að hluta til vegna mögulegs áhuga IAG Group, sem meðal annars rekur British Airways, Iberia, Air Lingus og Vueling flugfélögin, á að kaupa félagið.