Vatt ehf. – dótturfélag Suzuki bíla – mun á næstunni hefja sölu rafknúinna sendibíla og sendiferðabíla frá kínverska rafbílaframleiðandanum BYD. Markaðsstjórinn er bjartsýnn á að merkið nái fótfestu hér á landi.

BYD er um aldarfjórðungsgamalt fyrirtæki og með stærri rafbílaframleiðendum heims, með 100 þúsund bíla sölu á mánuði um þessar mundir, að því er fram kemur í tilkynningu frá Vatt. Bílarnir sem um ræðir sendibíllinn T3 og sendiferðabíllinn T6, en ekki kemur fram í tilkyningunni hvað þeir koma til með að kosta. Fyrir selur Vatt rafknúna fólks- og sendibíla af gerðunum Maxus og Aiways.

300 km drægni en aðeins 40 kW hraðhleðsla
Sá minni, T3, er í umfjöllun ástralska bílamiðilsins Car expert síðasta sumar sagður státa af 45 kílóvattstunda rafhlöðu og 70kW mótor sem skila eigi 300 kílómetra drægni og 100 km/klst hámarkshraða.

Hleðslutæki bílsins sem notað er fyrir heimahleðslu afkastar 6,6 kW sem er nokkuð algengt, en athygli vekur að hraðhleðslan takmarkast við aðeins 40 kW sem er ansi lítið í samanburði við flesta rafbíla í dag. Verðið þar í landi er sagt ígildi um 3,2 milljóna króna án opinberra gjalda.

7,5 tonna sendiferðabíll með 240 km drægni
T6 er lítill 7,5 tonna flutningabíll með 17 fermetra farangursrými og fjögurra tonna flutningsgetu. 120 kílóvattstunda rafhlaðan er sögð koma honum 240 kílómetra á fullri hleðslu og 150 kW mótorinn kemur honum, rétt eins og litla bróður, á 100 kílómetra hraða.

Bíllinn getur náð allt að 40 kW hæghleðslu, sem er töluvert umfram hleðsluhraða fólksbíla á slíkum stöðvum og á að geta fyllt bílinn á 3,5 tímum, en 96 kW hraðhleðsluhraðinn er rétt eins og á T3 heldur undirþyrmandi samanborið við vel á annað eða þriðja hundrað hjá flestum nýrri fólksrafbílum í dag.

Norskur dreifingaraðili á Norðurlöndum
„Ein mesta rafbílavæðing í heimi hefur orðið á Norðurlöndum og BYD smellpassar inn í þá þróun sem er að verða í þessum málum í Evrópu,“ er meðal þess sem haft er eftir Sonju Ólafsdóttur, markaðsstjóra Vatt í fréttatilkynningunni.

„Við teljum góðar líkur á því að BYD nái einnig góðri fótfestu hér á Íslandi sem á öðrum mörkuðum á Norðurlöndum þar sem er áhugi og þörf fyrir rafknúin ökutæki eykst með hverjum mánuðinum,“ segir hún ennfremur.

Norski bílainnflytjandinn RSA verður innflytjandi BYD rafsendibíla á öllum öllum Norðurlöndum, þ.e. Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Íslandi. BYD og RSA eru sagðir hafa unnið saman að uppbyggingu og áætlanagerð fyrir sölu á bílum og þjónustu á eftirmarkaði og varahlutasölu. Þegar hafi mörg hundruð T3 og T6 bílar verið afhentir norskum viðskiptavinum.