Skömmu fyrir páska fór verðbólgan í fyrsta skiptið í fjögur ár yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Fulltrúi í peningastefnunefnd sagði þetta ekki óeðlilegt  í ljósi þeirrar gríðarlegu þenslu sem nú sé í þjóðarbúskapnum. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, gefur lítið fyrir þessar útskýringar í pistli sem birtist í Viðskiptablaðinu .

„Auðvitað er fréttnæmt að verðbólgan sé fyrst nú að rjúfa verðbólgumarkmið eftir gríðarlegan hagvöxt síðustu ára en deila má um túlkunina," skrifar Ásdís. „Ef rýnt er í undirliði verðbólgunnar liggur í augum uppi að aukin þensla hefur ekkert með það að gera að verðbólgumarkmiðið sé nú rofið."Ásdís bendir á að frá árinu 2014 hafi Seðlabankinn sleitulaust spáð því að verðbólga fari yfir 2,5% verðbólgumarkmiðið.

„Það ætti þó ekki að hafa áhrif á vaxtastefnu Seðlabankans þar sem hún hefur engin áhrif á ytri þætti á borð við heimsmarkaðsverð á olíu. Þá væri vaxtahækkun á þessum tímapunkti fremur til þess fallin að auka framboðsvandann á húsnæðismarkaði. Það að verðbólgan fari nú yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans hefur ekkert með þenslu að gera."