Myrkur Software samanstendur af þremur ungum mönnum, þeim Friðriki Friðrikssyni, Halldóri Snæ Kristjánssyni og Daníel Arnari Sigurðssyni, sem unnu saman gífurlega metnaðarfullt lokaverkefni í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Verkefnið sem varð eitt stærsta rannsóknarverkefni sem framkvæmt hefur verið af nemendum HR snerist um að finna leið til að leyfa fólki að upplifa líkama sinn í sýndarheimi til að gera innlifunina ríkari og til að koma í veg fyrir ógleði og truflanir frá sýndarheimi. Tæknin sem Myrkur hannaði ber nafnið SomaVR og var unnið í samvinnu við háskólann og rannsóknarsetur HR, undir leiðsögn dr. Hannesar Högna Vilhjálmssonar og dr. David James Thue. Í kjölfarið ákváðu félagarnir að stofna fyrirtækið Myrkur Software.

Fantasíutölvuleikur í býgerð

Nú vinnur Myrkur að því að þróa nýjan þriðju persónu hlutverkaleik. „Við komum til með að búa til okkar eigin heim og stefnum að því að nota mikið til okkar eigin tækni til að búa til leikinn,“ segir Friðrik.

„Leikurinn verður fantasíu- og hlutverkaleikur þar sem við ætlum að setja mjög mikla áherslu á galdra og sverðabardaga. Einnig verður mikil áhersla lögð á söguþráð leiksins. Við ætlum að nýta okkur reynsluna sem okkur áskotnaðist frá síðasta verkefni í hreyfigreiningu og gera allar hreyfingarnar í leiknum í gegnum motion-capture, til að gera hreyfingar í leiknum eins raunverulegar og hægt er. Við ætlum að nota Soma VR tæknina sem við hönnuðum sem grunn í leiknum,“ bætir hann við. Leikurinn verður í þróun hjá Myrkur næstu þrjú ár og verður að því loknu gefinn út á alþjóðlegum markaði árið 2020.

Bæta við sig vegna aukinna umsvifa

Eins og sakir standa eru aðstandendur Myrkurs þrír. En á næstu misserum sjá þeir fram á að fjölga starfsmönnum vegna umsvifa verkefnisins. „Við stefnum að því að vera átta til tíu við lok verkefnisins eða yfir næstu tvö ár,“ segir Friðrik.

Þegar Friðrik er spurður út í næstu skref hjá fyrirtækinu segir hann að þeir áætli að vera komnir með frumgerð af leiknum í ágúst. „Í kjölfarið förum við í fjármögnunarferli og höldum svo áfram í kjölfarið,“ bætir hann við.

„Þetta hefur verið draumurinn okkar frá því að við vorum pollar. Við höfum fengið svo mikinn stuðning frá Háskólanum í Reykjavík og þeim sem hafa komið að verkefninu,“ segir Friðrik að lokum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur.