Heiðar Guðjónsson fjárfestir keypti nú í morgun hlutabréf í Sýn fyrir 200 milljónir króna og á nú rúman 1 og hálfan milljarð í félaginu, um 8,5% hlut, en hann er stjórnarformaður félagsins. Heiðar keypti samtals 3,25 milljón hluti á genginu 61,5 krónur á hlut.

Fréttablaðið sagði frá því fyrir stuttu að 365 miðlar hefðu selt allan 11% hlut sinn í Sýn, samtals yfir 32 milljón hluti, fyrir tæpa tvo milljarða, einnig á genginu 61,5. 365 miðlar eru þar að auki sagðir hafa keypt rúman 3% hlut í Högum fyrir 1,75 milljarða á genginu 47,5 krónur á hlut.

Ekki kemur fram hverjum 365 seldi, eða af hverjum Heiðar keypti, en kaup Heiðars samsvara rétt rúmum 10% heildarfjölda hluta sem 365 miðlar seldu.