Íslensk heilbrigðisyfirvöld óska eftir því að heilbrigðisstarfsfólk sem geti komið til vinnu með skömmum fyrirvara skrái sig á útkallslista vegna útbreiðslu Covid 19 veirunnar sem talin er upprunnin í Wuhan í Kína.

Er óskað eftir því að læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar skrái sig í þessa svokölluðu bakvarðarsveit heilbrigðisþjónustunnar. Er sérstaklega verið að leita að fólki sem hefur aðstæður, og er reiðubúið til, að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara.

Þá er miðað við hvort heldur sem er í fullt starf eða hlutastarf, eða í tímavinnu, eftir því hvað aðstæður viðkomandi leyfa. Þannig vonast stjórnvöld til að geta tekist á við skort á starfsfólki, ef starfsfólk verður fjarverandi vegna veikinda eða sóttkvíar.

Standa Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélag Íslands, sjúkraliðafélag Íslands, heilbrigðisráðherra, landlæknir, sóttvarnarlæknir og ríkislögreglustjóri saman að yfirlýsingunni, auk þess sem stefnt er að því að ræða við félög fleiri heilbrigðisstétta um aðkomu að bakvarðarsveitinni.

Hægt er að skrá sig á vef heilbrigðisráðuneytisins , en stjórnvöld vilja fólk sem getur skuldbundið sig tímabundið í allt að tvo mánuði, en launin munu taka mið af kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags.