Launasumman, staðgreiðsluskyld laun allra á vinnumarkaði, hækkaði um 5,8% milli fjögurra fyrstu mánaða 2020 og 2021. Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 9,7% þannig að heildarlaunatekjur landsmanna hækkuðu minna en föst mánaðarlaun. Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,3% á þessum tíma þannig að launasumman hefur hækkað um rúmlega 1,4% að raungildi. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans.

Launasumman í einkennandi greinum ferðaþjónustu á fyrstu fjórum mánuðum ársins lækkaði um tæp 38% frá sama tíma í fyrra. Á hinum endanum eru sjávarútvegur og opinber stjórnsýsla með 15% og 13% aukningu launasummu milli ára sé miðað við fyrstu fjóra mánuðina. Fyrir utan ferðaþjónustuna lækkar launasumman einungis í fjármála- og vátryggingarstarfsemi.

Launafólki sem fékk staðgreiðsluskyldar greiðslur fyrstu fjóra mánuði 2021 fækkaði um 5,6% frá sama tíma 2020. Launasumman hækkaði um 5,8% á nafnverði á sama tíma. „Það gæti bent til þess að tekjulægra fólk hafi í meira mæli horfið af vinnumarkaði en það sem hafði hærri tekjur,“ segir í hagsjánni.

Í ferðaþjónustunni fækkaði þeim sem fá staðgreiðsluskyldar tekjur um tæp 42% milli ára, á meðan fækkunin í öðrum greinum er innan við 2%. Einungis í opinberri stjórnsýslu og sjávarútvegi fjölgaði launafólki.