Heildarvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland (OMXIPI) hækkaði um 12,26% frá áramótum ef miðað er við 25. júlí sem lokadagsetningu. Hagfræðideild Landsbankans benti fyrst á þessa miklu hækkun í vikubyrjun. Í greiningu bankans var vísitalan borin saman við S&P, Dax 30 og FTSE 100 vísitölurnar, en þær höfðu ekki hækkað eins mikið og Heildarvísitalan hér heima. Heildarvísitalan fór rólega af stað á þessi ári en hún hækkaði talsvert í febrúar. Í maí stóð prósentuhækkun vísitölunnar á árinu í um 14% en síðan þá hefur vísitalan gefið eilítið eftir.

Til samanburðar hefur S&P hækkað um 10,64% frá upphafi árs og er í sögulegum hæðum. Einnig hefur hin þýska Dax 30 vísitala hækkað talsvert á árinu eða um 6,82% frá upphafi árs. Hin breska FTSE 100 hefur til samanburðar hækkað um 4,09% frá upphafi árs. Miðað er við lokunardagsetninguna 25. júlí 2017 í öllum tilvikum. Frá áramótum hefur Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq hækkað um 4,77% og því munar nærri 8% á vísitölunum.

Heildarvísitala Kauphallar Nasdaq
Heildarvísitala Kauphallar Nasdaq

Össur hefur mikil áhrif

Þessi mikla hækkun vakti áhuga Viðskiptablaðsins sem fór á stúfana og ræddi við Magnús Harðarson, forstöðumann viðskiptasviðs Kauphallar Nasdaq Iceland. Magnús bendir á að í heildarvísitölunni eru tekin með öll bréfin á aðalmarkaðnum. Bak við heildarvísitöluna standa sem sagt hlutabréf allra íslenskra hlutafélaga sem skráð eru á Aðallista. Vægi félaga í Heildarvísitölunni miðast við markaðsvirði þeirra.

Magnús segir að Össur, sem er stórt félag, hafi því haft talsverð áhrif á Heildarvísitöluna. „Verð nokkurra félaga á Aðalmarkaðnum en utan Úrvalsvísitölunnar hefur hækkað töluvert á árinu þannig að Össur skýrir ekki allan muninn á hækkun vísitalnanna. En af þessum tæplega 8% mun á Heildarvísitölunni og Úrvalsvísitölunni það sem af er ári má rekja tæplega 4,5% eða um 60% til hækkunar á hlutabréfum Össurar,“ segir Magnús.

Einnig hafa önnur félög utan Úrvalsvísitölunnar hækkað mikið frá áramótum, en til að mynda hefur Nýherji hækkað um 54,7%, Vodafone um 24% og HB Grandi um 22,9% en þessi félög eru smærri í sniðum en Össur, og því hafa hækkanirnar ekki eins mikil áhrif á Heildarvísitöluna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .