Sala hjá Hirzlunni nam um 366 milljónum króna á síðasta ári sem er 8,5% aukning frá árinu 2019 þegar veltan var 337 milljónir. Velta húsgagnasalans, sem sérhæfir sig í skrifstofuhúsgögnum, hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2017, sem var fyrsta heila rekstrarár hjá núverandi eigendum, Stefáni Axel Stefánssyni og Leifi Þ. Aðalsteinssyni. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 29,6 milljónum króna árið 2020, samanborið við 6,5 milljóna hagnað árið áður.

„Að baki þessum árangri liggur áralangt starf í markaðssetningu og orðsporið okkar er gott. Við klárum þau verkefni sem við fáum vel og örugglega fyrir viðskiptavini okkar. Við erum með réttar vörur, á réttum stað og réttum tíma,“ segir Halldór I. Stefánsson, sölustjóri Hirzlunnar.

„Það skiptir okkur miklu máli að hafa gott starfsfólk sem vinnur saman að því að viðhalda góðri þjónustu. Einnig leggjum við mikið upp úr því að geta afgreitt vörur fljótt út frá okkur og eigum því mikinn lager af skrifborðsstólum og rafmagnsborðum“ segir Halldór.

Fyrirtækið hafi á síðustu árum einblínt á að fá inn vörur frá viðurkenndum framleiðendum sem standast allar gæðakröfur og umhverfisvottanir. Þá hafi Hirzlan orðið aðili að rammasamningi við Ríkiskaup sem hefur lyft rekstrinum upp að sögn Halldórs. Rammasamningurinn hafi reynst ákveðinn gæðastimpill og Hirzlan sé orðin þekkt stærð í sín um iðnaði. Hann áætlar að í dag séu ríkisfyrirtæki um helmingur af viðskiptavinum fyrirtækisins. Stofnanir og fyrirtæki vegi saman um 90% af viðskiptum fyrirtækisins. Stuttu eftir að Stefán og Leifur tóku við rekstrinum árið 2016 flutti Hirzlan í 350 fermetra verslun í Síðumúla 37. Auk þess er fyrirtækið með þúsund fermetra vöruhús í Dugguvogi.

Fyrirtæki mubla upp heimaskrifstofur

Halldór segir að viðskiptahópur Hirzlunnar hafi breyst eftir að Covid-faraldurinn hófst. Viðskiptavinir húsgagnasalans byrjuðu að huga að heimaskrifstofum í auknum mæli. Fleiri einstaklingar voru farnir að kaupa inn húsgögn fyrir skrifstofur sínar, bæði rafmagnsborð og skrifstofustóla. Þá hafi mörg fyrirtæki keypt skrifstofuhúsgögn fyrir heimili starfsmanna eða sóttust eftir samningum fyrir þá. Halldór telur að vinnuumhverfið muni halda áfram að færast í þessa átt.

„Á komandi árum horfum við fram á að fyrirtæki með skrifstofur muni hafa valkvætt fyrir starfsfólk að vinna heima hjá sér, hvort sem það verður alveg frjálst eða eigi við um nokkra daga vikunnar. Það mun lækka húsnæðiskostnað fyrirtækja en á móti kemur þá verður algengara að fyrirtæki útvegi húsgögn heim til starfsmanna. Við fundum mikið fyrir þessari þróun í fyrra og erum að sjá hana áfram núna. Þetta er framtíðin í vinnuumhverfi, að fólk hafi aðstöðu í vinnunni og heima hjá sér,“ segir Halldór. Hann telur að með bættri aðstöðu á heimili starfsmanna og aukinni fjarvinnu þá verði algengara að starfsmenn deili borðum og aðstöðu á skrifstofum.

Hirzlan bætti fyrr á þessu ári við sig vörum frá fyrirtækinu Willamia, þar á meðal húsgögnum frá ítalska framleiðandanum Et-al. Með þessu vonast fyrirtækið til að svara kalli viðskiptavina um vandaðri hönnun fyrir heimilin.

„Við fundum fyrir því á síðustu misserum að okkur vantaði fleiri hönnunarvörur. Þarna erum við komin með ítalska hönnun og gæði fyrir heimili, hótel og veitingahús. Við höldum okkur á tánum hvað þarfir viðskiptavina okkar varða. Síðan nýir eigendur komu að Hirzlunni árið 2016 höfum við bætt við okkur fjölda vörumerkja og erum núna að selja vörur frá um tólf framleiðendum frá átta mismunandi löndum. Meðal nýjunga eru næðisrými sem eru algjörlega hljóðeinangrandi og minna helst á gömlu símaklefana.“

Hirzlan vinnur mikið af verkefnum með arkitektum og hönnuðum, og hefur Hirzlan flest allt sem þarf í húsgögnum fyrir vinnustaðinn. Starfsfólk Hirzlunnar teiknar upp skrifstofurýmin fyrir viðskiptavini sína endurgjaldslaust og gerir góð verðtilboð fyrir öll verkefni, stór sem smá. Þá hyggst Hirzlan stækka við sig og hefur nýlega byrjað að selja nemendahúsgögn. Halldór segir að fyrirtækið sé enn að þreifa fyrir sér þeim markaði og tekur fram að hann sé erfiðari en markaðurinn fyrir skrifstofuhúsgögn. Salan hafi þó gengið vel þrátt fyrir að stutt sé síðan Hirzlan bætti þeim vörum við sitt úrval.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .