Mestar sviptingar urðu á verði bréfa þeirra tveggja félaga sem voru í mestu viðskiptum í kauphöllinni í dag, en bæði Heimavellir, sem hækkuðu um 5,98%, og Marel, sem lækkuðu um 4,01%, voru í yfir milljarðs króna viðskiptum í dag.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag keypti norska íbúðaleigufélagið Fredensborg ríflega 10% hlut í Heimavöllum í dag, og um tíma nam hækkun gengis bréfanna nærri sama hlutfalli, en að lokagengi þeirra var 1,24 krónur þegar viðskiptadeginum lauk. Námu heildarviðskiptin 1.492 milljónum króna.

Marel lækkaði mest, eða um 4,01%, í 1.009 milljóna króna viðskiptum, og fór gengi bréfa félagsins niður í 622 krónur. Viðskiptablaðið fjallaði um helgina um afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Arion banka, eða fyrir 467 milljónir króna, en gengi bréfa bankans lækkuðu um 1,08%, niður í 82,30 krónur.

Næst mesta lækkunin var svo á gengi bréfa Icelandair, eða um 2,41%, niður í 8,49 krónur, í þó ekki nema 36 milljóna króna viðskiptum. Næst mest hækkun var hins vegar á gengi bréfa Vís, eða um 2,80%, í 38,20 krónur í 263 milljóna viðskiptum. Loks var þriðja mesta hækkunin á gengi bréfa hins fjarskiptafélagsins, Símans en bréf félagsins hækkuðu um 0,75%, í 429 milljóna viðskiptum og nam lokagengi þeirra 5,34 krónum.