Alls eru 17 félög skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar og hefur frekar lítið verið um nýskráningar síðastu tvö ár eða allavega minna en forsvarsmenn Kauphallarinnar vonuðust eftir.

Á árinu 2015 voru þrjú félög skráð en það voru fasteignafélögin Reitir og Eik og fjarskipafélagið Síminn. Í fyrra var einungis eitt nýtt félag skráð en það var Skeljungur, sem var skráð á markað í loks ársins, 9. desember.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að Heimavellir stefni að skráningu á þessu ári.

Heimavellir er leigufélag og námu eignir félagsins ríflega 43 milljörðum króna í lok síðasta árs. Leigutekjurnar námu tæplega 1,5 milljörðum króna í fyrra og skilaði félagið ríflega 2,2 milljarða hagnaði. Rekstur ársins 2016 einkenndist af miklum vexti. Í ársbyrjun 2016 voru Heimavellir með 445 leiguíbúðir í rekstri en í árslok 2016 voru þær 1.714 talsins. Jafnframt er búið að ganga frá kaupum á 308 íbúðum í byggingu sem koma til leigu á árinu 2017 og á fyrri árshelmingi 2018.

„Svo eru önnur verkefni í gangi," segir Páll. „Auk Heimavalla eru þetta þrjú félög til viðbótar sem við vitum að eru að skoða skráningu."

Félög eins og Advania og Ölgerðin hafa oft verið nefnd til sögunnar en Páll segist ekki geta sagt neitt um stöðuna á þeim. „Vegna trúnaðar get ég ekki sagt hvaða verkefni um ræðir," segir hann.

Þó verðþróunin á markaðnum hafi verið með slakara móti í fyrra þá hækkaði hann verulega árið 2015. Ef maður skoðar þróunina frá miðju ári 2014 þá hefur hún verið mjög hagstæð."

Erlendir fjárfestar

Gjaldeyrishöftum var að mestu aflétt í mars síðastliðnum.

„Það hefur verið ákveðin jákvæðni á markaðnum og líka jákvæðni gagnvart Íslandi," segir Páll. „Nú erum við að sjá erlenda fjárfesta koma inn á íslenska markaðinn af töluverðum þunga miðað við það sem maður hefur áður séð. Við höfum verið í töluverðum samskiptum við erlenda aðila frá því gjaldeyrishöftum var aflétt. Bæði að eigin frumkvæði og síðan höfum við verið að svara fyrirspurnum. Þannig að ég tel að það sé margt sem telji með skráningu félaga á markað núna."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .