Tilnefningarnefnd VÍS leggur til að Gestur Breiðfjörð Gestsson, Marta Guðrún Blöndal, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, Valdimar Svavarsson, og Vilhjálmur Egilsson verði kjörin til setu sem aðalmenn í stjórn tryggingafélagsins, og Auður Jónsdóttir og Sveinn Friðrik Sveinsson sem varamenn.

Hluthafafundur félagsins fer fram næstkomandi föstudag, þann 14. desember, og á dagskrá er meðal annars stjórnarkjör. Tíu manns hafa gefið kost á sér til stjórnarsetu, en samkvæmt samþykktum félagsins skal stjórnin skipuð fimm aðalmönnum auk tveggja varamanna.

Tilnefningarnefnd var sett á laggirnar með ákvörðun hluthafafundar 20. September síðastliðinn. Í hana voru sjálfkjörin þau Engilbert Hafsteinsson, Gunnar Egill Egilsson, Helga Hlín Hákonardóttir, Sandra Hlíf Ocares, og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir sagði sig úr nefndinni 30. nóvember eftir að hafa gefið kost á sér til stjórnarsetu í félaginu, og Helga Hlín Hákonardóttir sagði sig úr nefndinni í gærkvöldi.

Helga hafði, auk Jóns Sigurðssonar, áður sagt sig úr stjórn VÍS í lok október, að eigin sögn vegna ágreinings um stjórnarhætti.