Velta á gjaldeyrismarkaði var u.þ.b. helmingi minni í júní og júlí á þessu ári en í sömu mánuðum í fyrra. Þetta kemur fram í mánaðarlegu yfirliti hagfræðideildar Landsbankans yfir gjaldeyrismarkaðinn.

Gengi Íslensku krónunnar hefur verið mjög óstöðugt síðustu tvo mánuði eins og fjallað hefur verið um. Frá því í byrjun júní hefur krónan veikst gagnvart öllum helstu viðskiptagjaldmiðlum Íslands. Í lok dags 17. ágúst hafði krónan veikst um 14,9% gagnvart evru og og um 10,4% gagnvart Bandaríkjadollar frá því í byrjun júní.

Í yfirliti hagfræðisdeildarinnar kemur fram að vísbendingar séu um að vöru- og þjónustujöfnuður hafi verið svipaður í júní og júlímánuði í ár og í fyrra. Því telur deildin ólíklegt að rekja megi veikingu krónunnar til breytinga á jöfnuðinum.

Eins og áður segir hefur velta á gjaldeyrismarkaði hins vegar dregist töluvert saman. Verulega hefur dregið úr veltu á markaðnum frá því skilaskylda gjaldeyris var afnumin.

Í yfirlitinu kemur einnig fram að Seðlabankinn hafi að mestu haldið sig til hlés í veikingarfasa krónunnar. Seinasta inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði var 11. júlí síðastliðinn þegar hann seldi 9 milljónir evra. Í yfirlitinu segir: „Í ljósi þess að bankinn hefur sagst vilja draga úr miklum gengissveiflum og hversu virkur hann var á fyrri hluta árs þegar krónan var að styrkjast, má segja að bankinn sé ekki alveg samkvæmur sjálfum sér."

Þá kemur einnig fram að velta á gjaldeyrismarkaði hafi numið 39,8 milljörðum króna í júlímánuði. Er þetta svipuð velta og seinustu þrjá mánuði. Hlutur Seðlabankans af veltu mánaðarins var 3%. Hefur hlutur bankans ekki verið lægri síðan í júní 2013.