Gjaldþrotum fyrirtækja með virka starfsemi á síðasta ári fækkaði um ríflega helming, eða um 54%, á öðrum fjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni .

Af 375 fyrirtækjum sem urðu gjaldþrota á fjórðungnum voru um 60 með virkni árið undan. Flest þeirra voru í byggingarstarfsemi, eða 23, sem er 28% fækkun frá fyrra ári. Þá voru 5 í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á ökutækjum, sem er 75% fækkun og 8 í ferðaþjónustu sem er 80% fækkun.

Í heildina voru um 494 starfsmenn hjá fyrirtækjum sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á fjórðungnum. Það er 54% fækkun á milli ára. Á sama tímabili í fyrra voru starfsmenn gjaldþrota fyrirtækja um 1085.

„Mælt í fjölda launafólks á síðasta ári voru áhrif gjaldþrota á öðrum ársfjórðungi 2021 minni en á sama ársfjórðungi árið áður í öllum atvinnugreinaflokkum. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var launafólk á síðasta ári til dæmis um 275 sem er 35% fækkun frá sama tímabili 2020 og í einkennandi greinum ferðaþjónustu var fjöldinn um 11 eða 76% færri," segir í tilkynningunni.

Um 146 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta í júní. Af þeim voru 22 með virka starfsemi á síðasta ári, annað hvort með launþega eða veltu.