Íbúðalánasjóður spáir því að einstaklingsheimilum muni fjölga mest allra heimilisgerða á næstu árum, sem er breyting frá því sem áður var og gæti kallað á talsvert minni stærð íbúða hér á landi. Þá skortir að líkindum mun fleiri þriggja herbergja íbúðir inn á markaðinn en nú eru til sölu og leigu, en þá ályktun má draga af nýlegri spurningakönnun Íbúðalánasjóðs þar sem flestir aðspurðra sögðust vilja flytja í þriggja herbergja íbúð.

Þegar spurt var um óska fermetrafjölda íbúðar var algengasta bilið 80-120 fm. Þær íbúðir sem er nú eru í uppbyggingu eru að meðaltali á bilinu 110-120 fm að stærð og eru því í efri mörkum þess bils sem mest eftirspurn er eftir. Þetta kom fram á hádegisfundi Íbúðalánasjóðs í gær þar sem kynnt var ný skýrsla um íbúðaþörf á Íslandi til ársins 2040 og einnig farið yfir nýkynntar tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum og líkleg áhrif þeirra á húsnæðismarkaðinn.

Áhugi á tillögum átakshópsins virðist vera mikill en um hundrað manns mættu á fundinn og sköpuðust líflegar umræður að því er segir í fréttatilkynningu sjóðsins. Meðal annars vildu fundarmenn vita hvernig fjármagna eigi uppbygginguna sem átakshópurinn leggur til. Þá var einnig spurt hvort veitt yrðu sérstök hagstæðari vaxtakjör á lánum til þeirra verkefna sem tillögurnar taka til.

Meðal fundarmanna voru fulltrúar fjölmargra húsnæðisfélaga, bæði hagnaðardrifinna og óhagnaðardrifinna, greinendur fjármálastofnana, forystumenn fasteignasala auk fulltrúa helstu verkalýðshreyfinga. Þá sóttu fundinn ýmsir þingmenn og einnig ráðherra húsnæðismála, Ásmundur Einar Daðason, sem var kominn til að hlýða á umræðurnar og ræða við fólk um næstu skref.

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs, fór yfir þörfina fyrir íbúðir á næstu árum og hvernig tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins muni nýtast til að mæta eftirspurninni. Hann sagði að róttækar breytingar gætu átt eftir að sjást á eftirspurn eftir stærð íbúða, líkt og spár sjóðsins um fjölgun einstaklingsheimila séu til merkis um.

„Nú eru um 30% allra heimila einstaklingsheimili en við áætlum að helmingur allrar fjölgunar heimila til ársins 2040 verði vegna einstaklingsheimila. Þetta er meðal annars vegna breytts fjölskyldumynsturs, minnkandi barneigna og mikillar fjölgunar eldri borgara á næstu árum. Mörg pör eignast nú aðeins eitt barn og margir eldri borgarar búa einir, auk þess sem algengt er að þeir sem eru tveir í heimili kjósi að minnka við sig húsnæði,“ segir Ólafur Heiðar.

„Það mætti kannski segja að meðalíbúð framtíðarinnar sé 100 m2, þriggja herbergja og með frá einum og upp í þrjá íbúa. Það er mikil breyting. Um leið er þó rétt að minna á að enn vantar sárlega íbúðir sem eru minni en 100 fm. Hagkvæmar smáíbúðir ekki síst. Þar er ennþá stórt gat á húsnæðismarkaðnum sem þarf líka að uppfylla.“