Tengifarþegum sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgar ört. Fyrstu átta mánuði þessa árs voru skiptifarþegarnir ríflega 2 milljónir talsins samkvæmt tölum Isavia eða svipað margir og þeir voru allt árið í fyrra. Þetta kemur fram í umfjöllun Túrista um aukningu í tengiflugi.

Alls er vægi tengifarþeganna komið upp í 34% af heildarfjöldanum á flugstöðinni. Þessar breytingar endurspegla þróunina hjá íslensku flugfélögunum tveimur, Icelandair og Wow air, því að hlutfall skiptifarþega Icelandair hefur til að mynda aukist umtalsvert síðustu ár og var helmingur farþega flugfélagsins tengifarþegar og sömu sögu má segja um Wow air. Skúli Mogensen forstjóri flugfélagsins sagði að það sama mun eiga við um Wow air á þessu ári.

Tekið er fram að þessir tengifarþegar eru ekki taldir sem erlendir ferðamenn nema að þeir fari út úr Leifsstöð á milli flugferða. Aftur á móti gegnir öðru máli um svokallaða sjálftengifarþega, sem koma hingað til lands með einu flugfélaginu en halda samdægurs af landi brott með öðru. Í nýlegri könnun Isavia kom fram að um 11% farþega töldust vera sjálftengifarþegar og er því hægt að færa rök fyrir því að ferðamannafjöldinn á Íslandi sé ofmetinn sem því nemur.