Birgir Jónsson, forstjóri Play, hrósaði Icelandair á samfélagsmiðlinum LinkedIn fyrir markaðssetningu á EM-veislu Icelandair.

„Það er ekkert gaman að spila tennis við slappan andstæðing. Mér finnst þetta helvíti vel spilað hjá Icelandair. Kudos.", skrifaði Birgir. Tilefnið var tölvuskeyti sem Icelandair sendi á póstlistahóp sinn þar sem fólki bauðst miði á handknattleik milli karlalandsliðs Íslands og Svartfjallalands á EM, keypti það flugmiða á einn áfangastaða Icelandair og þaðan áfram til Búdapest.

„Mér finnst þetta dýnamísk markaðssetning og bara vel spilað hjá Icelandair, eins og ég sagði á Linkedn," segir Birgir um færsluna. Hann segir það alltaf skemmtilegt þegar mótherjinn kemur á óvart og sjálfsagt að hrósa þeim, eða gefa „kúdós", fyrir góðan leik. „Þetta er oft svo persónulegt á Íslandi að fólk dettur auðveldlega í skotgrafir. Í mínum huga, ef maður værir KR-ingur, þá mætti maður alveg örugglega segja við andstæðinginn, ætli það sé ekki Valur, „þið voruð bara helvíti góðir í gær, vel gert". Blaðamaður, sem á rætur sínar að rekja til Vesturbæjarins, er ekki ofurseldur á þessa hugmynd.

„Svona er þetta í tónlistinni, tónlistarmenn eru alltaf að hrósa hverjum öðrum," segir Birgir þá og heldur áfram: „Líklega sprettur þetta upp úr því, svona þegar ég fer að pæla í því. Maður gerir ekkert annað en að mæra aðra trommara á netinu, þannig að mér finnst bara fullkomlega eðlilegt. Ég fékk bara þennan tölvupóst frá Icelandair og hugsaði með mér hvað þetta væri ótrúlega sniðugt hjá þeim."

Rétt búinn að læra að Guðjón Valur sé bestur

Þá liggur beinast við að spyrja Birgi hvort tilboðið sé nægilega lokkandi til þess að hann skelli sér á leikinn. Eftir örstuttar fabúleringar um mögulega ferð með Play og tengiflugi með Wiss dregur Birgir þær vangaveltur fljótt til baka, enda hefur hann ekki verið þekktur fyrir djúpan áhuga á knattíþróttum, þótt annað mætti kannski ætla af íþróttasamlíkingum hans þessa dagana.

„Nei, nei. Til að byrja með þá eru ekki reglur í þessum leik. Ég var að reyna að fylgjast með þessu um daginn en þetta voru voða miklar hrindingar á vellinum. Svo er þetta mjög ruglandi, því við erum alltaf í bláu og ég sé menn í bláum búningum, en svo allt í einu vorum við í hvítu og hinir í bláu og ég hugsaði bara með mér „hvað er að frétta, hvaða rugl er þetta?". Það eru alltaf bara sömu gæjarnir í Kiss og Iron Maiden, það skiptir kannski einn á tuttugu ára fresti, en maður þarf ekkert að halda með einhverjum nýjum mönnum á hverju ári. Maður er rétt búinn að læra að Guðjón Valur sé bestur og þá er hann bara hættur og kominn einhver nýr. Ég skil þetta ekki," segir Birgir að lokum en óskar strákunum að sjálfsögðu góðs gengis í leiknum óskiljanlega gegn Svartfjallalandi.