Ólíkindatólið Michelle Roosevelt Edwards, einnig þekkt undir nöfnunum Michelle Ballarin, Michelle Golden-Ballarin og Amira Ballarin, var til viðtals hjá Ingólfi Bjarna Sigfússyni í Kveik á RÚV í gærkvöldi. Athygli hefur vakið að búgarðurinn þar sem viðtalið fór fram, og Ballarin kynnti sem sinn eigin, er skráður til sölu og er Ballarin skráð sem fasteignasali hennar.

Viðskiptablaðið sagði fyrst innlendra miðla frá því að það hefði verið Roosevelt Edwards, þá kölluð Ballarin, sem hefði keypt tilteknar eignir úr þrotabúi Wow air . Þá hefur blaðið einnig fjallað um ýmis ævintýri hennar í gegnum tíðina en flest eiga þau það sameiginlegt að vera nokkuð endasleppt.

Í viðtalinu sem sýnt var í Kveik í gær tók Roosevelt Edwards á móti fréttamanni á búgarði í Virginíu en húsið sjálft er jafngamalt sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna. Það vakti athygli fréttamanns RÚV að enga persónulega muni var þar að finna og ísskápar og búr geymdu vart matarbita. Sömuleiðis þótti honum skrítið að landareignin væri auglýst til sölu á vefnum.

Aðspurð um það hvort eignin væri til sölu svaraði Roosevelt-Edwards því að svo væri ekki. Hún hefði nýverið fest kaup á eigninni. Umrætt viðtal fór fram í nóvember 2020 og virðist sú fullyrðing þúsundþjalasmiðsins ekki vera alveg sannleikanum samkvæm.

Á vef Sager fasteignasölunnar má sjá auglýsingu fyrir eignina. Þar kemur fram að svefnherbergi séu 23 talsins, baðherbergin á annan tug, eldhúsin séu þrjú og að eignin sé í um klukkutíma fjarlægð frá höfuðborginni. Þá er Roosevelt-Edwards, að vísu þarna kölluð Ballarin, skráð sem fasteignasali eignarinnar. Verðið er rétt tæplega 30 milljónir dollara. Skjáskoti úr þætti Kveiks hefur nú verið bætt við auglýsinguna. Auglýsingin er lokuð IP-tölum frá Íslandi og því nauðsynlegt að nýta VPN brellur til að komast inn á hana.

Þá má einnig sjá á vefnum að Ballarin hefur verið löggiltur fasteignasali í Virginíu-ríki frá árinu 1996 og að réttindi hennar renna út í september 2022 nema hún ljúki tilteknum endurmenntunarstundum. Starfsheitið fasteignasali bætist því við hergagnasala, veitingastaðareigandi, eigandi flugfélags og vegalagningu í Kenýa. Ekkert bólar síðan á því að vélar Wow fljúgi á nýjan leik.