Raddstýrða snjallsímalausnin Inch var á meðal þeirra hugmynda sem komust til úrslita í viðskiptahraðlinum Startup SuperNova í ár. Inch er samskipta- og verkefnastjórnunarkerfi sem hannað er fyrir innri samskipti fyrirtækja. Lausnin er sniðin fyrir starfsmenn á faraldsfæti, starfsfólk sem sinnir síbreytilegum verkefnum á síbreytilegum staðsetningum. Um er að ræða viðbót við vaktarkerfið Sling sem sett var á markað um mitt árið 2015. Sling er í dag notað víðsvegar um heiminn af yfir 300 þúsund starfsmönnum.

Verkefnastjóri Inch, Lyuba Kharitonova, segir að á þeim fimm árum sem Sling hefur verið í þróun hafi þeim borist fjölmargar ábendingar frá notendum um hvernig uppfæra mætti vaktarkerfið. Í stað þess að breyta virkni Sling var ákveðið að búa til nýja lausn í staðinn og varð Inch útkoman. Inch á að sameina verkefnastjórn, sjálfvirka tímaskráningu og samskiptakerfi og á með því að draga úr óskilvirkni og auðvelda verkferla fyrir áðurnefndan markhóp.

„Okkur tekst að ná til fleiri viðskiptavina og um leið mæta þeirra þörfum á betri hátt með komu Inch, fremur en ef viðbæturnar hefðu átt sér stað inn í kerfi Sling,“ segir Kharitonova. Inch hentar einkum vel fyrir þá starfsmenn sem sinna hinum ýmsu verkefnum á mismunandi stöðum í gegnum daginn, til að mynda fyrir heimahjúkrun og ræstitækna sem fara á milli fyrirtækja.

Hugmyndin er enn í þróunarferli en stefnt er að koma lausninni í loftið á fyrri hluta næsta árs. Til að byrja með verður lausnin markaðssett fyrir Bandaríkjamarkað en síðar meir mun Inch vera þróað fyrir Evrópumarkaðinn og þá á nokkrum tungumálum.

Markhópurinn stór og ekki sinnt nægjanlega vel

Í fjárfestakynningu Sling sem fór fram í ágúst síðastliðnum benti Khartitonova á að um 80% af vinnumarkaðnum á alþjóðavísu starfa við önnur störf en skrifstofuvinnu, eða um 2,7 milljarðar manna. Hún telur að litlu fé sé varið í hugbúnaðarlausnir sem auðvelda á verkferla téðs hóps og tækifærin því mikil. Árangur Sling ber þess merki en félagið er nú með starfsstöðvar í fjórum löndum, meðal annars á Íslandi, Bandaríkjunum og Póllandi.

Kerfið er notað af yfir 20 þúsund fyrirtækjum, yfir 300 þúsund starfsmönnum í yfir 100 löndum. „Við fórum af stað með þetta árið 2015/16 með það fyrir augum að byggja upp vöru fyrir ameríska markaðinn þar sem um 75% af okkar viðskiptavinum eru,“ segir Helgi Hermannsson, stofnandi Sling, og ljóst að Inch hyggst stefna í sömu átt. Auk Bandaríkjanna er kerfið notað víða í Kanada og Bretlandi en í dag eru yfir 300 fyrirtæki á Íslandi sem notast við Sling.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .