Tollstjóri hefur óskað eftir nauðungarsölu á íbúð í Vestmannaeyjum í eigu Hermanns Hreiðarssonar, fyrrverandi landsliðsmanns í knattspyrnu og fjárfestis, vegna 42,8 milljón króna kröfu að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu

Hermann segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann geri ekki ráð fyrir því að af nauðungarsölu verði og málið hafi farið mun lengra en staðið hafi til. Málið tengist fjárfestingum í kvikmyndagerð á Bretlandi, sem hann líkt og fjölmargir aðrir knattspyrnumenn á Bretlandseyjum hafi tekið þátt í. „Það var send krafa frá Bretlandi yfir,“ segir Hermann.

„Tollstjóri er alveg meðvitaður um þetta mál,“ segir Hermann. Eftir lagabreytingu í Bretlandi hafi fjölmargir aðilar fengið bakreikning frá breskum skattyfirvöldum. „Þeir breyttu lögunum og þannig að fullt af fólki fengu alls konar reikninga,“ segir Hermann.

Forbes greindi frá því í janúar að Beckham hjónin, David og Victoria, knattspyrnumennirnir Wayne Rooney, Gary Lineker og tónlistarfólkið Geri Halliwell, Annie Lennox og Andrew Lloyd Webber hafi verið meðal þeirra sem hafi verið neitað um endurgreiðslu af breskum skattyfirvöldum eftir fjárfestingu í breskri kvikmyndagerð. Þau hafi nú höfðað dómsmál til að fá fé sitt til baka. Þar er bent á að fjárfestingarnar nái allt aftur til síðustu aldamóta sem að mörg þúsund þekktir og auðugir einstaklingar á Bretlandi hafi tekið þátt í.

Eitt þeirra verkefna sem Hermann fjárfesti í sé enn á borði dómstóla á Bretlandi. „Það er endurskoðandi með þetta úti. Þegar komin er niðurstaða í það þá annað hvort skuldar maður eitthvað eða ekki. Ef maður skuldar eitthvað þá bara borgar maður það og ef maður á inni þá fær maður það,“ segir Hermann.

Hins vegar hafi Hermann ekki fengið neitt endurgreitt vegna fjárfestingarinnar sinnar og því geti vart staðist að hann fái reikning frá skattinum vegna þess. „Ég var búinn að borga og fékk aldrei neitt endurgreitt," bendir Hermann á.