Bílaleigan Hertz hefur sótt um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum, en kórónuveirufaraldurinn hefur leikið bílaleigurisann grátt. BBC greinir frá. Fyrirtækið mun halda áfram starfsemi, á meðan reynt verður að endurskipuleggja fjárhag þess. Hefur þetta ekki áhrif á starfsemi Hertz í Evrópu, Ástralíu og Nýja Sjálandi.

Mest allar tekjur Hertz koma frá bílaleigu til erlendra ferðamanna á flugvöllum en veirufaraldurinn hefur orðið til þess að eftirspurn eftir slíkum viðskiptum hefur þurrkast út.

Bílaleigan hefur neyðst til að segja upp um helming af starfsfólki sínu á heimsvísu, eða um 20.000 manns, til að bregðast við hrapandi eftirspurn sökum veirunnar. Þar að auki sagði forstjóri félagsins upp störfum í síðustu viku og ljóst er að arftaka hans mun bíða ærið verkefni við að reyna að koma böndum á fjárhag félagsins.