Hertz var valin besta bílaleigan á Íslandi hjá World Travel Awards í St. Pétursborg í Rússlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt í flokki bílaleiga á Íslandi en World Travel Awards eru virt verðlaun sem veitt eru í ferðaþjónustunni á heimsvísu.

„Það er gríðarlegur heiður fyrir okkur að fá viðurkenningu á því góða starfi sem starfsfólk okkar vinnur á hverjum degi,” segir Kristján Bergmann Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Hertz á Íslandi í fréttatilkynningu.

Á annað hundrað bílaleigur eru starfræktar á Íslandi. Fimm bílaleigur voru tilnefndar til verðlauna hjá World Travel Awards og stóð Hertz uppi sem sigurvegari.

„Það er mikil samkeppni á bílaleigumarkaðinum á Íslandi en verðlaunin eru staðfesting á þeirri frábæru þjónustu og þeim gæðum sem Hertz hefur upp á að bjóða,” segir Kristján Bergmann.

Í ár veitti World Travel Awards verðlaun í níu flokkum á Íslandi. Hótel Borg, Ion á Nesjavöllum og Reykjavik4you Apartments fengu gull í sínum flokkum þriðja árið í röð en var Hótel Saga valið besta hótelið fyrir viðskiptaferðir fjórða skiptið í röð. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaun eru veitt í flokki bílaleiga en einnig voru í fyrsta sinn veitt verðlaun í flokki ferðaskrifstofa og þyrlufyrirtækja á Íslandi.

World Travel verðlaununum var komið á fót árið 1993 til að veita viðurkenningar í öllum geirum ferðaþjónustunnar um allan heim.

Sigurvegarar World Travel Awards á Íslandi árið 2017:

  • Besta hönnunarhótelið - ION Luxury Adventure Hotel
  • Besta hótelið fyrir vinnuferðir - Radisson Blu Saga
  • Besta hótelið - Hótel Borg
  • Besti dvalarstaðurinn (Resort) - Hótel Rangá
  • Besta íbúðahótelið - Reykjavik4you Apartments
  • Besta hótelaðstaðan (Hotel residence) - Hótel Reykjavík Centrum
  • Besta bílaleigan - Hertz
  • Besta þyrluþjónustan - Norðurflug
  • Besta ferðaskrifstofan á áfangastað - Iceland Travel