Gunnar Gunnarsson hefur verið ráðinn sem forstöðumaður áhættustýringar hjá Creditinfo. Gunnar er með doktorspróf í stærðfræði frá Kaliforn- íuháskóla í Santa Barbara og M.A. gráðu frá sama skóla.

„Ég var í námi mjög lengi, kom heim árið 2008 og hóf störf í áhættustýringu hjá Íslandsbanka. Ég fór í eigin ráðgjöf í áhættustýringu og fjármálum með vini mínum hjá ráðgjafafyrirtækinu Interga. Síðan datt inn þetta frábæra tækifæri hjá Creditinfo og mér fannst þetta steinliggja miðað við minn bakgrunn, menntun og starfsreynslu,“ segir Gunnar.

Forðast heppnisþáttinn

Gunnar segist hafa fjölda áhugamála sem halda honum uppteknum milli þess sem hann sinnir fjölskyldu og starfi.

„Ég spila meðal annars blak, tefli og spila kotru.“ Gunnar er kvæntur og á þrjú börn á aldrinum þriggja til tólf ára. Kotra er ekki almenn íþrótt á Íslandi en Gunnar segist einfaldlega hafa kynnst leiknum og fallið fyrir honum. „Þetta er leikur sem er herkænska og líkindafræði. Ég stundaði þetta af krafti um skeið og náði svo þeim árangri að vera Íslandsmeistari í íþróttinni. Þá var það nú ekki mjög mikið spilað á Íslandi en Kotrusambandið er nú að verða sterkara.“

Gunnar æfir líka blak með Fylki, en hann hefur núna æft íþróttina í á annað ár. „Ég hef alltaf haft gaman af blaki. Blak er góð íþrótt á þann hátt að þú þarft ekki að hlaupa og fer betur með hnén. Í mínum huga er blakið, í einhverjum skilningi, hið fullkomna bumbusport fyrir gamlingja. Til dæmis er öldungamótið í blaki eitt stærsta íþróttamót sem haldið er á Íslandi á ári hverju.“

Nánar er rætt við Gunnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu með því að smella á hlekkinn Innskráning.